150. löggjafarþing — 119. fundur,  18. júní 2020.

uppbygging á friðlýstum svæðum.

788. mál
[12:53]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og vil lýsa mig fyllilega sammála orðum hv. þm. Vilhjálms Árnasonar. Mig langar að koma inn á nokkur atriði, í fyrsta lagi að ráðherra útskýri betur fyrir okkur í lokaorðum sínum hvað hann átti við með orðunum „efnislegir innviðir ekki fyrsta viðbragð“. Ég held að ráðherrann hafi verið að svara einhverju í annarri spurningu hv. þm. Karls Gauta Hjaltasonar.

Síðan langar mig að koma inn á það að vera kann að uppbygging, ekkert endilega í jaðri friðlýstra svæða heldur innan þeirra, sé til þess fallin að auka upplifun og ánægju þeirra sem vilja skoða þau svæði, eins og hv. þm. Vilhjálmur Árnason benti á. Ég vil líka koma því á framfæri að það getur verið betri kostur að landeigendum sé falið stærra og meira hlutverk en að ríkið sé að væflast í þessu. Gleymum því ekki að bændur Íslands eru vörslumenn landsins og hafa í raun lagt hvað mest af mörkum í að vernda, byggja upp og friða landið.