150. löggjafarþing — 119. fundur,  18. júní 2020.

uppbygging á friðlýstum svæðum.

788. mál
[12:56]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmönnum fyrir þátttöku í þessari fínu umræðu. Til að svara því hvað átt sé við með að efnislegir innviðir séu ekki endilega fyrsta viðbragð er hér átt við að oft og tíðum koma landverðir í stað þess að ráðist sé í umfangsmikla uppbyggingu, sérstaklega til að byrja með. Með því að þeir vinni á þessum friðlýstu svæðum og beini fólki á ákveðna staði frekar en aðra og með því að halda uppi þeirri fræðslu sem gert er á svæðunum má draga úr nauðsyn þess að fara í dýra innviðauppbyggingu.

Lykilatriðin eru þau að í þjóðgörðunum vinnum við atvinnustefnu, stjórnunar- og verndaráætlanir þar sem farið er yfir með hvaða hætti eigi að byggja upp innviði, hvar eigi að byggja upp og hvar ekki. Og það er afskaplega mikilvægt að við höfum þessi stjórntæki, bæði í þjóðgörðunum okkar og á öðrum friðlýstum svæðum, stjórnunar- og verndaráætlanir. Þetta er planið fyrir það hvernig við ætlum okkur að gera hlutina og halda utan um þessi verðmætu svæði okkar.

Innviðaáætlunin sem ég nefndi í fyrra svari mínu er síðan lykilatriði þegar kemur að því að forgangsraða verkefnum. Núverandi ríkisstjórn hefur sett stóraukið fé inn á þessi svæði. Í ár fer um milljarður króna í innviðauppbygginguna svo að dæmi sé tekið. Við höfum fjölgað landvörðum um allt land þannig að fjármagnið fer bæði til svæða í eigu ríkisins og náttúruverndarsvæða á forræði annarra.

Ég minni á að friðlýsing er stórkostlegt stjórntæki til að beina fólki á staði, skipuleggja svæði þar sem oft og tíðum hefur orðið of mikill ágangur og halda þannig skipulega utan um þessi svæði þannig að þau geti í framtíðinni (Forseti hringir.) orðið okkur öllum og komandi kynslóðum til sama yndisauka og þau hafa verið hingað til.