150. löggjafarþing — 119. fundur,  18. júní 2020.

aðgerðir til þess að verja heimilin.

786. mál
[13:26]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Þetta er sannarlega þörf umræða. Í viðtali við Markaðinn á þjóðhátíðardaginn í gær gaf seðlabankastjóri út dánartilkynningu fyrir verðtryggingu á húsnæðislánum. Í svari við spurningu blaðamanns um að heimilin hafi á undanförnum misserum í stórum stíl verið að færa sig yfir í óverðtryggð lán og hvort seðlabankastjóri telji raunhæft að þau muni segja skilið við verðtrygginguna svarar seðlabankastjóri á þá leið að nú séu tímarnir breyttir. Í fyrsta sinn sé það raunverulegur kostur fyrir heimilin að skipta yfir í nafnvexti og þannig afnema verðtrygginguna að eigin frumkvæði af sínum lánum.

Seðlabankastjóri segir, með leyfi forseta: „Þetta eru mikil tímamót og fela í sér að verðtryggingin mun deyja út.“

Í þessu felst að heimilin sjálf rýma út verðtryggingunni með liðsinni fjármálamarkaðarins. Hún er þó ekki úr sögunni, mikill skaði hefur hlotist af henni fyrir heimilin eins og hv. fyrirspyrjandi rakti. Við því verður að bregðast. Þar á meðal er nauðsyn á að lögfesta raunhæft lyklafrumvarp eins og það sem ég hef ítrekað lagt fram með stuðningi fleiri hv. þingmanna.