150. löggjafarþing — 119. fundur,  18. júní 2020.

aðgerðir til þess að verja heimilin.

786. mál
[13:27]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Karli Gauta Hjaltasyni fyrir mikilvægar fyrirspurnir og sömuleiðis hæstv. ráðherra fyrir svörin. Hæstv. ráðherra rakti það í sinni stuttu ræðu að á undanförnum árum hafi vel til tekist í efnahagsmálum, vísaði til lágrar verðbólgu, lágra vaxta o.s.frv. En nú eru blikur á lofti og við stöndum á ákveðnum tímamótum þegar kemur að framhaldinu, mikilli óvissu. Þá eru aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna veirufaraldursins efst á baugi. Og hvernig hefur tekist til? Jú, því miður hafa þær, margar hverjar, komið allt of seint til framkvæmda. Ég nefni t.d. brúarlánin og stuðningslánin. Ég held að stuðningslánin séu ekki enn komin til framkvæmda. Mörg fyrirtæki bíða eftir þessum úrræðum. Þar á bak við er fólk sem hefur atvinnu og fjölskyldur. Atvinnuleysið er mjög mikið um þessar mundir og óvissan (Forseti hringir.) með haustmánuðina og veturinn er mikil. Á sama tíma er mikilvægt að fyrirtækin geti nýtt sér úrræðin sem ríkisstjórnin kemur fram með (Forseti hringir.) en það hefur gengið allt of hægt.