150. löggjafarþing — 119. fundur,  18. júní 2020.

aðgerðir til þess að verja heimilin.

786. mál
[13:29]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Karl Gauti Hjaltason) (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans og einnig þakka ég innlegg annarra þingmanna í þessa umræðu sem mér finnst mjög brýn. Ég tek undir með hæstv. ráðherra þar sem hann minnist á að auðvitað sé nauðsynlegt að halda sig við efnið í þessum efnum, þ.e. að varast að verðbólgan fari af stað. Ég hjó eftir því að hæstv. ráðherra talaði um að enginn gerði ráð fyrir því að verðbólgan færi af stað. Það er gott að heyra og þess vegna spyr ég á móti: Fyrst enginn gerir ráð fyrir því af hverju er þá ekki einfaldlega hægt að afnema hana? Hvaða flækjustig erum við komin á?

Ég vil einnig ítreka þriðju spurningu mína. Ég spyr: Eru stjórnvöld farin að undirbúa aðgerðir, í ljósi atvinnuástandsins í samfélaginu og óvissunnar sem fram undan er, til að stöðva þá þróun sem hugsanlega gæti orðið ef verðbólga færi af stað með tilheyrandi hækkunum á lánum og áhættu fyrir heimilin í landinu? Ég geri mér grein fyrir að slíkur undirbúningur tekur einhvern tíma. Þess vegna spyr ég: Hafa stjórnvöld undirbúið það að grípa inn í með skjótum hætti ef það myndi gerast? Ég heyrði svar hæstv. ráðherra um að hættan væri engin og að enginn gerði ráð fyrir því að verðbólga færi af stað. Þess vegna spyr ég: Eru einhverjar aðgerðir tilbúnar ef það myndi nú gerast?

Loks vil ég minnast á lyklafrumvarpið og spyrja hvort hæstv. ráðherra sé stuðningsmaður þess frumvarps. Mörg ríki Evrópu og sum ríki Bandaríkjanna hafa tekið efni þess upp til að gæta jafnræðis (Forseti hringir.) með lánastofnunum og lánþegum og gæta þess að lántaki geti gengið úr húsnæði sínu skuldlaus eftir að hafa misst það, (Forseti hringir.) eftir nauðungarsölu eða af öðrum ástæðum, í stað þess að stofnanir elti hann linnulaust.