150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[15:05]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Ég er með nokkur atriði sem eru útistandandi úr síðustu ræðu sem mig langaði til að ítreka aðeins. Í nefndaráliti meiri hlutans er fjallað ansi mikið um almenningssamgöngur, þá sérstaklega uppbyggingu almenningssamgangna, svo sem í tengslum við samgöngusáttmálann sem gerður var á höfuðborgarsvæðinu með aðkomu allra sveitarfélaga. Sá samningur hefur vakið nokkra umræðu, sérstaklega hvað varðar almenningssamgöngurnar. Þar hefur komið fram áhugaverð gagnrýni, eða áhugaverð í mjög kaldhæðnislegum tón, myndi ég segja, um að uppbygging á því sem nefnt hefur verið borgarlína, eða bara einfaldlega uppbygging á almenningssamgöngum, sá hluti þess samnings, sé allt of dýr og muni ekki skila tilætluðum árangri. Því hafa fylgt ýmiss konar hugleiðingar um að það vanti nú rekstraráætlun og kostnaður sé óviss og fólk hafi ekki hugmynd um hver lokareikningurinn verði og þar fram eftir götunum. Það er allt rangt.

Mig langaði til að fara aðeins yfir það. Gerð var greining fyrir nokkrum árum, hún kom út árið 2013 þannig að vissulega þarf að uppfæra hana aðeins. Ég veit um aðra nýlegri en það er erfiðara að finna hana, hún er ekki eins aðgengileg og mjög erfitt að leita í nefndagátt þingsins sem geymir öll skjölin. Þar er ekkert skipulag nema eftir máli og mjög mörg mismunandi skjöl eru undir hverju máli og ekki augljóst á heiti skjalanna hvað verið er að fjalla um þar. En í greiningunni sem gerð var var fjallað um kostnað, stofnkostnað og rekstrarkostnað, og ávinning af uppbyggingu samkvæmt nokkrum sviðsmyndagreiningum sem gerðar voru.

Til að byrja með var gerð sviðsmynd A, ákveðin grunnsviðsmynd um hvernig umferð myndi þróast til ársins 2040 ef lagt væri í svipaðar fjárfestingar og gert hefur verið á undanförnum árum og áratugum, þ.e. aðallega uppbyggingu á stofnvegum, minna í uppbyggingu á almenningssamgöngum og þess háttar. Miðað við fólksfjöldaspár og ýmislegt leggst það út sem grunnsviðsmynd, sem viðbótarsviðsmynd B og sviðsmynd C bera sig síðan saman við, um hvort hagkvæmara sé að fara þá í aðrar eða öðruvísi aðgerðir en á undanförnum áratugum. Sviðsmyndir B og C fjalla báðar um aukna uppbyggingu á almenningssamgöngum, bara mismikla, sviðsmynd B fjallar um minni uppbyggingu á almenningssamgöngum og minni þéttingu byggðar en grunnsviðsmynd C.

Þeim er báðum skipt í tvo parta, annars vegar hraðvagnakerfi og hins vegar léttlestakerfi. Samkvæmt þeim greiningum er í rauninni búið að setja til hliðar þær sviðsmyndir sem byggjast á léttlestakerfum, þær eru einfaldlega mun dýrari í framkvæmd og ekki eins rekstrarlega hæfar þar sem eini staðurinn á höfuðborgarsvæðinu sem er með nægilega þéttingu fólksfjölda til að bera léttlest er handan við hringtorgið á enda Miklubrautar, þannig að sviðsmyndin sem valin hefur verið er svokölluð B1-sviðsmynd, sem er aukin þétting byggðar og uppbygging á almenningssamgöngum. Þá er reiknað með að á þessu tímabili, 2015–2040, ef reiknaður væri kostnaður, rekstrarkostnaður og stofnkostnaður og þess háttar, væri aukinn rekstrarkostnaður miðað við sviðsmynd A 9 milljörðum meiri á 25 ára tímabili. Það er slatti á ári en ekkert rosalega mikið. Hins vegar þegar borinn er saman ávinningurinn af því að fara leið B1 með aukinni þéttingu byggðar og auknum almenningssamgöngum er ávinningurinn 114,8 milljarðar á móti 9, nær 115 á móti 9. Sá ávinningur borgar aukinn rekstrarkostnað og miklu meira en það og þó að farið væri út í nákvæmari sviðsmyndagreiningar og kostnaðargreiningar í kringum þá sviðsmynd sem var unnin þarna er mjög fátt sem breytir stærðarhlutföllunum á ávinningi og kostnaði.

Kannski eru þetta ekki lokaniðurstöðurnar þegar allt kemur til alls, kannski verður rekstrarkostnaðurinn tvöfalt meiri, t.d. 18 milljarðar, sem er tvöföldun á verði. Kannski verður ávinningurinn helmingi minni. Þá erum við samt að tala um 18 milljarða á móti 60 eða svo. Það er samt sem áður margfalt meiri ávinningur af því að fara í sviðsmynd B1, sem er borgarlínan eins og hún er hugsuð í dag, hraðvagnakerfi og þétting byggðar, í staðinn fyrir að gera það sama og við höfum gert á undanförnum áratugum.

Ég hlakka til að sjá þá þingmenn sem hafa talað sérstaklega á móti þessum áætlunum fjalla einmitt um þessa möguleika sem við höfum út frá þeim bestu gögnum sem við höfum aðgengileg. Ekki þarf að giska á að engin rekstraráætlun sé á bak við það, hún er til. Það er ekki svo að það sé engin hugmynd um hver kostnaðurinn er, hún er þarna. Í staðinn fyrir að hafa enga hugmynd um það hver ávinningurinn verður er hægt að sjá það þarna líka. Þetta er allt þarna. Ekki nóg með það heldur er ekki einu sinni gert ráð fyrir öllum útreikningum hvað varðar ábata í þessari greiningu, t.d. vantar ábatagreiningu um loftslagsmál inn í þessa útreikninga. Ábatinn er því þegar allt kemur til alls enn þá meiri en kemur þarna fram og þá erum við bara rétt nýbyrjuð að tala um mögulegan afkastagetumun á þessum tveimur sviðsmyndum, annars vegar sviðsmynd A, sem er óbreytt framkvæmdafyrirkomulag eins og á undanförnum áratugum, og hins vegar á þéttingu byggðar og borgarlínu. Afkastagetan á B1-leiðinni, borgarlínuleiðinni, almenningssamgönguleiðinni, er miklu meiri en ef farin er sú leið að gera það sem við höfum gert hingað til. Möguleikarnir á því að sinna til framtíðar auknu álagi í umferð á höfuðborgarsvæðinu eru miklu meiri ef við förum í þá uppbyggingu sem er skipulögð með borgarlínu en ef við förum bara í stofnvegaframkvæmdir. Ef við horfum til þessara mjög svo einföldu viðmiða sem er hægt að skoða og þeirra upplýsinga og þeirrar greiningar sem hefur verið gerð á þeim kostum þá ætti að liggja í augum uppi að þetta séu leiðirnar sem við veljum til framtíðar. Það er alltaf hægt að gera betur með nákvæmari sviðsmyndagreiningum en í þeim stærðarhlutföllum sem við erum að tala um sé ég ekki að við munum nokkurn tímann koma illa út úr þeirri uppbyggingu almenningssamgangna sem skipulögð er samkvæmt þeirri sviðsmyndagreiningu. Það þýðir ekki að þetta sé óbreytanlegt. Að sjálfsögðu gerum við fleiri skoðanir og fleiri prófanir eftir því sem svæðið þróast, eftir því sem fólksfjöldinn breytist kannski miðað við forsendur o.s.frv. Þá er alveg hægt að laga þetta skipulag að þeim smáatriðum sem (Forseti hringir.) þar koma til með að sjást. En það breytir ekki stóru myndinni (Forseti hringir.) hvað muninn á leið (Forseti hringir.) A og leið B1 varðar.