150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[15:17]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Kostnaðurinn er svona mikill. Við eigum nefnilega í smávandræðum með ákveðna kostnaðarskiptingu á milli sveitarfélaga og ríkisins. Það er tvímælalaust pínulítið ruglingslegt hvað þetta verkefni varðar þar sem mörg af mannvirkjunum fara yfir til sveitarfélaganna sem borga kannski hlutfallslega minna inn í þennan samning en andvirðið segir til um. Það vandamál á rætur að rekja til þess hversu röng skiptingin er á milli ríkis og sveitarfélaga til að byrja með, að ríkið hefur sett fjölmörg verkefni yfir til sveitarfélaganna án tilheyrandi fjármagns. Í raun væri réttara að langflest af þessum verkefnum væru eingöngu hjá sveitarfélögunum og að sveitarfélögin væru fjárhagslega sjálfstæð svo þau gætu tekist á við þau.

Eins og fram kom í máli umsagnaraðila hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga er kostnaðarhlutdeild af útgjöldum hins opinbera kannski 70% hjá sveitarfélögum en 30% hjá ríkinu annars staðar á Norðurlöndum. En á Íslandi eru 70% hjá ríkinu og 30% hjá sveitarfélögum. Þetta skekkir alla myndina varðandi valdajafnvægið á milli sveitarstjórnarstigsins og ríkisins. Allt er þetta opinbert fé, almannafé, sem greitt er með sköttum, hvort sem það er greitt með sköttum íbúa sveitarfélaga til ríkisins eða sveitarfélagsins, og síðan fer það aftur til sveitarfélaganna frá ríkinu. Þar er ákveðin ölmusustarfsemi í gangi sem við þurfum að breyta aðeins. Ég sé ekki mikið að skiptingunni á vegaframkvæmdum því að þegar allt kemur til alls er greitt fyrir þær af almannafé, sem sveitarfélög og ríki eru hluti af. Ég næ kannski að koma inn á hitt í seinna svari.