150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[15:22]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég var ekki byrjaður að ræða þetta af því að ég var ekki byrjaður að svara þessum hluta spurningarinnar. Varðandi Keldnalandið og stofnanirnar þar eru það vissulega fasteignir sem annars vegar er hægt að selja og kaupa þá eitthvað sambærilegt í staðinn, eða að gera eitthvað annað hagkvæmara fyrir vikið. Vandamálið, eins og ég lýsti því í fyrra andsvari, er einmitt að ríkið tekur 70% af almannafé, af útgjöldum hins opinbera í heild. Með því tekur ríkið miklu meira af þeim verkefnum sem annars ættu að vera hjá sveitarfélögum, hjá nærsamfélaginu sem slíku, og ætti þar af leiðandi líka að taka á sig ábyrgð hvað það varðar. Að kostnaðarhlutdeildin lendi meira á ríkinu en útlit ætti að vera fyrir, miðað við hvar vegirnir liggja o.s.frv., finnst mér skiljanlegt út frá auknu ábyrgðarhlutverki ríkisins sem er með svona mikil umsvif af heildarrekstri hins opinbera. En það er nokkuð sem þarf að laga.

Hvað varðar markaðsverðið á lóðunum, t.d. á Keldnalandinu, var mjög vel farið yfir það í áliti meiri hlutans að tvímælalaust ætti að passa upp á hlutdeild ríkisins þar og verðmæti þess hlutar í meðförum, sölu og nýtingu á því landi. Reynt var að tryggja mjög vel það aðhald sem sýna þyrfti fjárlaganefnd á þinginu. Ef einhver frávik kæmu upp ætti að tilkynna um þau til að hægt væri að aðlaga áætlanir. Ég hef í raun engar áhyggjur af þessum áætlunum. Jú, þær geta farið eitthvað plús eða mínus fram og til baka en á 15 ára áætlun er ekkert (Forseti hringir.) óeðlilegt að sjá fram á það. Þegar maður horfir í heildina á mögulegan ábata (Forseti hringir.) af þessu verkefni er mjög mikið svigrúm til að auka hann þrátt fyrir að verkefnin fari eitthvað fram yfir.