150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[15:57]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Hvers vegna eru menn að fara PPP-leiðina? Ég sé bara eina ástæðu. Með þeirri leið getur samgönguráðherra valið þau verkefni sem hann vill, að vísu með samþykki þingsins. En það er örugglega partur af þessu þriggja manna samkomulagi að hann fái að ráða tiltölulega frjálst yfir sínum málaflokki. Hann gæti ekki gert það innan ramma samgönguáætlunar, en hann gæti gert það með því að taka verkefnin út fyrir. Ef hann tekur verkefni út …(Gripið fram í.) Þetta sagði mér stjórnarþingmaður þegar við ræddum þetta mál. Er það ekki þannig? Skil ég þetta ekki rétt? Um leið og þessi samgönguáætlun hefur verið samþykkt og aðgerðaáætlun til fimm ára þá er hún ekkert endurskoðuð fyrr en eftir þrjú ár, er það ekki? Ég fór yfir lögin og ég held að það séu þrjú ár, ég get tékkað á því. Þá eru þau verkefni læst úti þangað til aftur er komið að því að endurskoða þessa hluti. Þá þarf annaðhvort að bíða miklu lengur, og óvíst hvar verkefnin lenda í forgangsröðun þegar þau eru sett aftur inn, eða fólk bara sættir sig við að taka þetta 33% aukaálag á sig og borga það að fullu sjálft.