150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[15:58]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir þetta. Þetta skýrir aðeins það sem hann var að meina, að fram að næstu endurskoðun áætlunarinnar séu þessi verkefni fyrir utan. Það er annað sem mig langar að spyrja hv. þingmann út í: Hingað til hefur málflutningur margra Pírata einkennst af því að það virðast vera einhver prinsipp í gangi með að það verði alltaf að liggja ljóst fyrir hvað verið er að samþykkja og hvert menn eru að fara. Mig langar að spyrja hv. þingmann út í það hvernig honum lítist á það að samþykkja hér þetta ohf.–fyrirtæki eða hugmynd sem er hluti af þessum samgöngupakka öllum saman þar sem í raun er verið að setja ríkissjóð í þá stöðu að hafa opinn tékka gagnvart þessari borgarlínu. Horfir það einhvern veginn öðruvísi við en önnur verkefni? (Gripið fram í.) Það er hárrétt. Hv. þingmaður sem hér kallaði fram í gat ekki svarað spurningum hv. þm. Birgis Þórarinssonar áðan (Gripið fram í.) um ákveðna kostnaðarliði. Við hljótum að spyrja hvort það sé raunhæft og hvort það sé eðlilegt að skrifa upp á óútfylltan tékka fyrir hönd ríkissjóðs þegar kemur að borgarlínunni.