150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[16:00]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni fyrir ræðuna. Ég vil nefna það hér að þegar kemur að Píratasöfnuðinum þá er hann í minni hluta á Alþingi eins og við Miðflokksmenn, en á vettvangi Reykjavíkurborgar eru þeir í meiri hluta. Þeir eru í valdastöðum, þeir fara með völd. Þeir eru yfir stærsta og mikilvægasta málaflokknum í Reykjavík, kannski næst á eftir fjármálunum, en það eru samgöngumálin. Þess vegna finnst mér nauðsynlegt að ræða við hv. þingmann um stefnu Pírata í mikilvægum málum sem snerta Reykjavíkurborg og höfuðborgarsvæðið. Nú hefur það vakið mikla athygli að Sundabraut virðist ekki ofarlega á forgangslista til að mynda borgaryfirvalda og ýmis önnur mál sem þar eru hærra skrifuð. Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann, sem ég vil alls ekki gera ábyrgan fyrir ákvörðunum á vettvangi borgarstjórnar, en ég veit að þetta er valddreifður söfnuður sem hann tilheyrir hér: Hver er afstaða Pírata til þess mikilvæga (Forseti hringir.) samgöngumannvirkis og þeirra öryggismála sem því tengjast, sem er Sundabraut?