150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[16:30]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Ísleifssyni fyrir mjög góða spurningu. Ég vil sjá Sundabrautina og Samfylkingin styður Sundabrautina. Um það snýst málið ekki. Það er ekki vandamálið. En auðvitað er fólk ósammála um hvaða leið á nákvæmlega að fara varðandi hana og það er eðlilegt að það samtal sé tekið.

En af því að mér fannst hv. þingmaður tala borgarlínuna örlítið niður þá held ég að það sé einmitt rétt forgangsatriði að byggja upp borgarlínu. Ég hef oftar en einu sinni komið í stórborgir úti í heimi þar sem eru gríðarlega flottar almenningssamgöngur. Það má nefna borgir eins og Brussel. Það má nefna New York og London, sem er náttúrlega sögulega merkileg borg hvað almenningssamgöngur varðar. Í hvert skipti sem ég hef komið þangað hef ég alltaf hugsað: Af hverju erum við ekki komin lengra með almenningssamgöngur á Íslandi en raun ber vitni? Ég held að það að hafa hugrekki til að setja borgarlínuna í forgang, sem meiri hluti borgarstjórnar hefur gert, sé gríðarlega mikilvægt og stórt skref í þá átt. Bættar samgöngur skila sér svo á margvíslegan hátt til íbúa landsins. Við vitum að betri og greiðari samgöngur styrkja atvinnulífið, styrkja búsetuskilyrðin, það er betra að búa í borgum þar sem eru góðar almenningssamgöngur og maður þarf ekki alltaf að reiða sig á einkabílinn. Ég gæti haldið lengi áfram en ég er því miður búin með tímann en hlakka til að svara síðara andsvari hv. þingmanns.