150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[17:08]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og ég skal alveg taka undir það með hv. þingmanni að það er mikilvægt í því árferði sem nú er, atvinnuleysi og samdrætti, að ríkissjóður komi inn í fjárfestingarverkefni sem eru arðsöm. Ég tek undir það.

En hér erum við bara að tala um verkefni af gríðarlegri stærðargráðu, að lagðir séu til 50 milljarðar kr. úr ríkissjóði. Verkefnið er talið vera upp á um 70 milljarða. Þá erum við að tala um borgarlínu. Heildarkostnaður er á bilinu 63–70 milljarðar. Óvissan er um 7 milljarðar. Hver á að greiða þá? Það er óljóst. Segjum að nýtt land eða lóð fyrir byggingar sem eru þegar á Keldnalandi kosti einhverja milljarða. Hv. þingmaður er þá fljótlega kominn upp í eina 10 milljarða. Það eru bara miklir peningar (BLG: … hundrað.) sem við vitum ekki hvernig á að skipta á milli ríkis og borgar. Síðan eru það frávik og annar ófyrirséður kostnaður. Hvernig á að skipta honum? Það er ekkert talað um það. Á ríkið bara að taka á sig 75%? Á það að taka á sig 50%? Ég hef ekki komist að niðurstöðu um að það sé nægilega frágengið til að ég sé tilbúinn að skrifa undir.

Það kostar 3 milljarða að tvöfalda Reykjanesbraut frá Hvassahrauni og Lónakoti inn að Krýsuvíkurafleggjara. Það hefur verið margra ára barátta og loksins hillir undir það. Þetta er hættulegasti þjóðvegur landsins. Loksins hillir undir að það verði farið í verkefnið árið 2022. Það eru 3 milljarðar. Hér er verið að tala um verkefni upp á 70 milljarða.

Hv. þingmanni er tíðrætt um ábatann. Ég hef ákveðnar efasemdir um að þetta, eins og það er lagt upp núna, (Forseti hringir.) sé eins ábatasamt og hv. þingmaður ræðir hér um. (Forseti hringir.) Hver kemur notkunin á þessu samgöngumannvirki raunverulega til með að vera(Forseti hringir.) þegar upp er staðið? (Forseti hringir.) Verkefni fyrir 50 milljarða úr ríkissjóði og 70 milljarða heildarframkvæmdakostnaður sem verður sjálfsagt að lokum töluvert meiri en það.