150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[17:21]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er einmitt mjög gaman að fjalla um og fara yfir Sundabraut og það verkefni sem hún hefur verið á þessari öld og lengur. Ytri leiðin svokallaða hefur verið á aðalskipulagi a.m.k. síðan 2001, ekkert endilega nákvæmlega teiknuð þá og hefur verið ítrekuð og gerð nákvæmari frá því 2010. Svo er það innri leiðin, svokölluð eyjalausn, sem Vegagerðin hefur mælt með, líklega aðallega vegna þess að hún er ódýrari. Ef maður skoðar aðeins það svæði sem hún lendir inn á þá er það dálítið upphafið að umferðarþrengingunum og töfunum sem ná inn á Reykjanesbraut frá Sæbraut. Þó að hún eigi að létta á Ártúnsbrekkunni á einhvern hátt mætist umferðin samt nokkurn veginn þar, í kringum slaufuna sem er þar á Miklubraut, Reykjanesbraut og Sæbraut, sem þýðir í raun að hún léttir ekkert rosalega mikið á, nema að umferðin á að beinast eitthvað yfir á Sæbraut, en sú umferð er ekki alveg hugsuð sem slík.

Maður veltir aðeins fyrir sér hvort innri leiðin sé í raun sú framtíðarlausn sem hún gæti verið fyrir dreifingu á umferðinni því að innri leiðin beinir umferðinni dálítið aftur inn á Miklubraut í staðinn fyrir að beina út á Sæbraut ef ytri leiðin yrði farin. Þá væri fólk sem annars væri að fara innri leiðina eða Miklubraut að fara Ártúnsbrekkuna og Miklubraut en fólk sem er að fara ytri leiðina færi yfirleitt Sæbraut, og þá myndi ekki myndast þessi þétting sem verið er að reyna að forðast.