150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[17:30]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Í fyrstu ræðu minni um þetta mál fjallaði ég einkum um innanlandsflugið og flugvellina. Það er tiltölulega dapurleg lesning, svo ekki sé fastar að orði kveðið, finnst mér, því að því er einfaldlega lýst að víða vanti mikið upp á að flugvellir standist þær kröfur sem gerðar eru til þeirra. Talað er um að þar þurfi að bæta úr en algjörlega óljóst hvernig eigi að standa að því, þ.e. það vanti fjármagnið og jafnvel að ef ekki takist að leysa úr því, ég man ekki alveg hvernig orðalagið var hvað það varðar, það var eitthvað á borð við að leita þurfi leiða til að finna fjármagn og takist það ekki þurfi að skerða þjónustu. Það hljómar hálfundarlega í ljósi mikilla yfirlýsinga um að efla innanlandsflugið og alls talsins um skosku leiðina svokölluðu.

Ég kom reyndar aðeins inn á þá umræðu og skosku leiðina í fyrstu ræðu minni. Það var í framhaldi af því að stjórnarliðinn Rósa Björk Brynjólfsdóttir hafði réttilega bent á að skoska leiðin í Skotlandi snýr eingöngu að því að styrkja fólk í alafskekktustu byggðarlögunum til að gera því kleift að kaupa sér flugmiða, einn eða kannski tvo, fremur en að það feli í sér almennan stuðning við innanlandsflug sem almenningssamgöngur. Því spurði ég hvernig ríkisstjórnin sæi fyrir sér að innleiða skosku leiðina því að það vantar í áætlunina. Hér komu upp nokkrir hv. þingmenn, hver með sína kenningu um það hvernig menn vildu sjá þetta og gott og vel. Vonandi verður það sem víðtækast og vonandi verður það ekki eins og í Skotlandi en maður hefði viljað sjá þess stað í samgönguáætluninni, sérstaklega í ljósi þess að þar er mjög dregið í land varðandi uppbyggingu innviða innanlandsflugsins á Íslandi, svo ekki sé minnst á Reykjavíkurflugvöll og þá sorgarsögu alla. Ég hafði boðað að ég myndi ræða Reykjavíkurflugvöll meira en ég ætla að bíða aðeins með það og segja þetta gott í bili af innanlandsfluginu því að það er fleira sem ég þarf að fara yfir í þessari samgönguáætlun.

Í þessari ræðu mun ég einbeita mér að almenningssamgöngum. Það er að sjálfsögðu gerð grein fyrir þeim. Í áætluninni, undir kafla 2.3, Markmið um hagkvæmar samgöngur, birtast svona vangaveltur, ég held að það sé ekki hægt að kalla þær annað, um vegakerfið og notendagjöld og svo í næsta kafla um hið svokallaða samvinnuverkefni. Þarna er ekki kveðið upp úr um neitt en velt vöngum yfir annars vegar notendagjöldum og hins vegar, og auðvitað því tengdu, samstarfi opinberra aðila og einkafyrirtækja við uppbyggingu vegakerfisins.

Þá komum við að almenningssamgöngunum því þar er þó aðeins fastar kveðið að orði með í hvað stefnir og rifjað upp að hér hafi verið í gildi samkomulag ríkis og sveitarfélaga um almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Ég held að það sé best, herra forseti, að ég lesi þennan stutta kafla til að tala svo út frá því. En í áætluninni segir, undir liðnum Almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu, með leyfi forseta:

„Í gildi er samningur Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, SSH, og ríkisins um tilraunaverkefni á sviði almenningssamgangna þar sem ríkið leggur til um 1 milljarð kr. á ári í styrki gegn frestun stórra framkvæmda á svæðinu. Stefnt er meðal annars að því að tvöfalda hlutdeild almenningssamgangna úr 4% í 8% í öllum ferðum innan höfuðborgarsvæðisins miðað við árið 2011 fyrir árið 2022.“

Nú liggur þegar fyrir að það markmið mun ekki ganga upp. Hlutfall ferða þegar þetta var sett af stað og þessi styrkur ríkisins hófst, milljarður á ári til að efla almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu, var 4%. Nærri áratug síðar var það 4% en svo benda menn á að farþegum hafi aðeins fjölgað en auðvitað hefur íbúunum fjölgað líka. Þetta hefur nánast engu skilað nema auðvitað framkvæmdastoppinu sem var liður í þessu. Samkomulagið fól nefnilega það í sér að á meðan yrði stopp í framkvæmdum við samgöngumannvirki á höfuðborgarsvæðinu. Stærri verkefni yrðu látin bíða í áratug, hugsa sér það, á meðan þetta tilraunaverkefni færi fram. Framkvæmdastoppið hefur staðið í áratug. Verkefnið um almenningssamgöngur hefur engu skilað. Svo segir hér áfram, með leyfi forseta:

„Aðkoma ríkisins að almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu og vinnusóknarsvæði þess hefur þýtt bætta þjónustu með tíðari ferðum og lengri aksturstíma og farþegum hefur fjölgað töluvert.“ — Þetta er það sem ég gat um áðan, af því að íbúunum hefur fjölgað eykst hlutfallið ekki. — „Samhliða undirritun samgöngusáttmálans 26. september sl. skrifuðu fulltrúar ríkis og sveitarfélaga undir samkomulag um vilja um að endurskoða núgildandi samning til 12 ára, eða til ársins 2034. Þeirri vinnu á að ljúka fyrir árslok 2020.“

Með öðrum orðum: Dæmið gekk ekki upp, þessi furðulega tilraun, að setja stopp á úrbætur í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu gegn því að ríkið setti milljarð á ári í almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Það gekk ekki upp. Og hver eru viðbrögð stjórnvalda þegar það blasir við núna eftir áratug? Þau eru að framlengja til ársins 2034 verkefni sem ekki gekk upp. Það er auðvitað með stökustu ólíkindum, herra forseti, jafnvel þegar menn gefa sér áratug og milljarða á milljarða ofan í tilraunaverkefni og þegar í ljós kemur að það gangi ekki upp, hver eru viðbrögðin? Að halda áfram með verkefnið. Það er vegna þess að það er ekki verið að taka ákvarðanir út frá staðreyndum, út frá því sem virkar, heldur út frá einhvers konar ímyndarpólitík.

En þá að stöðu almenningssamgangna almennt. Herra forseti. Ég hef nýtt mér strætó töluvert í gegnum tíðina. Á menntaskóla- og háskólaárunum notaðist ég iðulega við strætó og fannst það ágætt og tel mjög mikilvægt að við viðhöldum öflugum almenningssamgöngum. Það var ekki alltaf auðvelt. Strætisvagninn gekk á hálftíma fresti í Seljahverfi og það var auðvitað sjálfum mér að kenna að oft og tíðum missti ég af honum því ég kom of seint. Veðrið var ekki alltaf gott. Ég minnist þess t.d. að í eitt skipti var svo hvasst að ég varð að anda í gegnum munninn svona til hliðar en munnvatnið fauk allt út úr mér svoleiðis að þegar ég kom að stoppistöðinni var ég með klakabrynju á hægri kinninni en strætó var farinn af því ég var of seinn eða strætó of snemma. Ég veit ekki hvort það var í það skiptið. Ég hélt áfram að nota strætó og eignaðist ekki bíl fyrr en ég var kominn vel yfir þrítugt. Svo hef ég búið í borgum erlendis þar sem ég saknaði þess aldrei að eiga einkabíl, eiga fjölskyldubíl, en það var vegna þess að þetta voru borgir sem voru byggðar með þeim hætti, höfðu byggst upp um aldir út frá miðaldaborgum, að maður gat farið sinna ferða nokkurn veginn, meira og minna, það sem þurfti, hvort sem það var út í búð eða á fundi eða í skóla gangandi og í versta falli þá fundið strætó eða lest. Aðstæður á Íslandi eru hins vegar allt aðrar. Við getum ekki miðað úrbætur í samgöngumálum hér við aðstæður í gjörólíkum borgum.

Ótrúlegt en satt, herra forseti, er ég að (Forseti hringir.) renna út á tíma og ég er ekki búinn með innganginn um almenningssamgöngur (Forseti hringir.) svoleiðis að ég verð að biðja hæstv. forseta að setja mig aftur á mælendaskrá.