150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[17:41]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Afsakið. Ég bjóst ekki við öðru en að einhver myndi koma í andsvar við hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson. Voruð þið búin með andsvörin? Ég fylgist greinilega ekki nógu vel með. Ég biðst afsökunar á því.

Ég held áfram þar sem frá var horfið. Það sem ég fjallaði um í fyrri ræðu var, í stuttu máli, lög um samgönguáætlun, lagaramminn sem er settur utan um hana, hvernig búinn er til rammi um forgangsröðun samgönguverkefna sem eru fjármögnuð af ríkinu og leiðir sem ráðherrar geta farið út fyrir þann ramma, sem hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson leggur til núna, rammann sem kveður á um meginmarkmið eins og öryggi, hagkvæmni, greiðfærni og fleiri markmið. Það eru leiðir til að komast fram hjá þeim ramma með því að ríkið fari í einhvers konar einkaframkvæmdir eða í samstarf við einkaaðila um framkvæmdir og láti almenning borga — þetta er smá úr fyrri ræðu og andsvörum. Samkvæmt Félagi íslenskra bifreiðaeigenda kosta slíkar framkvæmdir 33% meira en ef ríkið gerði þær, ríkið er náttúrlega með miklu betri kjör en einkaaðilar þegar kemur að fjármagni og svo er náttúrlega hærri arðbærnikrafa hjá einkaaðilum. Félagi íslenskra bifreiðaeigenda reiknast til að kostnaðurinn sé 33% meiri. Hann leggst bara á þá sem þurfa að nota veginn. Þetta er ekki mikill greiði í sjálfu sér sem ráðherra er að gera. Jú, hann fær þessar framkvæmdir í gang í sínu kjördæmi sem hann hefði kannski ekki fengið annars, en það verður miklu dýrara fyrir þá sem þurfa að nota veginn en ef farið yrði eftir þeim ramma sem lög um samgönguáætlun setja um forgangsröðun á verkum.

Ég var kominn að 5. gr. frumvarpsins frá 2008, ég held áfram þar, með leyfi forseta:

„Skýrsla um framkvæmd samgönguáætlunar. Ráðherra skal árlega leggja fram á Alþingi skýrslu um framkvæmd samgönguáætlunar næstliðið ár.“

Ég mun nefna það sérstaklega ef eitthvað breyttist þegar lögum frá 2002 var breytt 2008. Ef ég nefni það ekki eru mjög sambærilegir hlutir þarna eða þeir sömu. Það er eitt atriði hérna sem er breytt frá 2002, fellt var út skilyrðið „fyrir lok vorþings“, þ.e. að ráðherra ætti að leggja fram skýrsluna árlega fyrir lok vorþings. Þetta er eina breytingin þarna.

Svo er það 6. gr. laganna, um gildistöku samgönguáætlunar og fimm ára aðgerðaáætlunar samgönguáætlunar, með leyfi forseta:

„Samgönguáætlun og fimm ára aðgerðaáætlun hennar taka gildi þegar Alþingi hefur samþykkt þær sem þingsályktanir.“

Þetta er það sem við erum að ræða hér, hvort samgönguáætlun og þessi fimm ára aðgerðaáætlun eigi að taka gildi.

Eins og ég nefndi í fyrri ræðu er ég ekki í nefndinni og er þar af leiðandi ekki búinn að setja í forgang að skoða þetta mjög vel. Ég er núna að skoða lagaumgjörðina um samgönguáætlun og aðgerðaáætlunina til þess að geta betur tekið þátt í þessari umræðu sem hér fer fram og hefur teygst mikið úr. Það er mikið í húfi.

Þingflokkur Pírata hefur árlega fengið Gallup til að gera fyrir sig skoðanakönnun um forgangsröðun ríkisfjármuna. Fyrsta skoðanakönnunin snerist um útgjöld ríkisins, hvernig fólk vildi forgangsraða þeim, t.d. til menntamála og heilbrigðismála. Heilbrigðismálin hafa alltaf verið efst síðan við gerðum könnunina fyrst 2014, alltaf langefst. Menntamálin hafa verið ofarlega, húsnæðismálin líka. Svo ruku samgöngumál á þarsíðasta ári upp og eru orðin landsmönnum mikilvægari. Það kemur að sjálfsögðu engum á óvart. Þeir sem nota vegi landsins eru mjög meðvitaðir um hve illa þeir eru farnir og hve seint er lagt út í framkvæmdir.

Ein leið til að réttlæta að farnar séu aðrar leiðir en einhvers konar skattlagning til að borga fyrir innviðauppbyggingu í samfélaginu, sama hvort það er í samgöngum eða í heilbrigðiskerfinu eða hverju sem er, fyrir einhverja þjónustu sem ríkið veitir, og færa hana yfir á hendur einkaaðila, er að undirfjármagna þá innviðauppbyggingu, svelta hana þangað til að opinbera þjónustan er orðin svo léleg að fólk er tilbúið til að sætta sig við einkavæðingu, sætta sig við einkarekstur í þeim geirum.

Í heilbrigðismálum getur þetta verið hættulegt að því marki sem það er búinn til ákveðinn hvati. — Ég ætla að orða þetta svona: Einkarekstur er frábært rekstrarform til þess að búa til og halda í kúnna. Það er tilgangurinn. Faðir nútímastjórnunar, Peter Drucker, nefnir þetta sem tilgang einkarekstrar. Ef maður vill meira af einhverju og ef maður vill fleiri kúnna getur verið gott að nota það rekstrarform. En í heilbrigðisþjónustunni þarf að gjalda varhug við þessu því að þar viljum við færri sjúklinga. Við viljum að fjármunirnir skili á endanum því að sjúklingar verði færri. Það sama á við um fangelsisrekstur. Sem betur fer erum við ekki komin í þá átt á Íslandi. Það samtal hefur ekki einu sinni átt sér stað, held ég, á Íslandi, en þannig er það í Bandaríkjunum. Þar er ákveðin tilhneiging stórra hagsmunaaðila í þeim geirum að ýta undir þyngri refsingar og þar af leiðandi verða kúnnarnir fleiri. Hverjir eru kúnnarnir? Jú, fangarnir. Það er náttúrlega hrikalegt fyrirkomulag. En þegar kemur að vegum viljum við fleiri vegi þannig að í sjálfu sér er það ekki ástæða til að segja nei við einkaframkvæmdum. Ástæðan, þegar kemur að vegum í einkaframkvæmd, er að landsmenn vilja almennt ekki vegtolla. Hvalfjarðargöngin eru eitthvað sem ég held að flestir landsmenn séu eftir á sáttir við, þannig að það eru fordæmi fyrir því að fara þá leið. Það er ekki þannig að ekki undir neinum kringumstæðum sé hægt að fara þá leiðina.

Og hvers vegna er ég að tala um þetta? Jú, ráðherra er með annað frumvarp um að taka út úr þessari samgönguáætlun ákveðin verkefni. Það er búið að undirfjármagna allt, en svo segir hann: Ef ég tek þessi verkefni út þá getum við farið strax af stað með þau. En þið þurfið að borga. Vegaframkvæmdir hafa verið undirfjármagnaðar og innviðauppbygging almennt; brúarsmíði, jarðgöng o.s.frv. Réttlætingin er til staðar: Nú fáið þið þetta. Ef við samþykkjum samgönguáætlun svona er búið að taka þessi verkefni út úr samgönguáætlun, þrjú af þeim sem gætu annars farið af stað innan samgönguáætlunar, búið að taka þau út fyrir sviga. Ef samgönguáætlun er samþykkt svona eru þessi úti í þrjú ár í viðbót. Þar með er skapaður aukinn þrýstingur á að fólk sætti sig við að borga aukalega fyrir vegaframkvæmdir.

Hverjir græða á því? Jú, þeir sem fjárfestu í verkefninu. Félag íslenskra bifreiðaeigenda hefur sagt að það sé 33% dýrara að láta einkaaðila gera þetta en hið opinbera. Hið opinbera fær miklu betri vexti og er ekki með þessa ávöxtunarkröfu. Einkafjárfestar fá þarna flottan fjárfestingarkost. Samgönguráðherra klárar málið sitt og getur slegið keilur þar: Sjáið, ég náði að koma þessum framkvæmdum í gegn. En það verður á kostnað þeirra sem á endanum þurfa að nota vegina.

Ég er ekkert alveg viss um að fólk verði sérstaklega ánægt með að þurfa að borga fyrir vegina. Kannski er ráðherra að veðja á að fólk horfi til þess að annars hefði þetta ekki verið hægt. En það er hægt að fjármagna innviðauppbyggingu, vegauppbyggingu, brúargerð, samgöngumannvirki. Tekjur af bensíngjaldi eru alltaf að fara niður vegna þess að (Forseti hringir.) bílarnir nota minna og þeir eru rafvæddir, en það er hægt að lesa bara kílómetrastöðuna (Forseti hringir.) og láta fólk borga fyrir það sem það keyrir. Það væri einfaldast og skilvirkast og væri sanngjarnast.