150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[18:00]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Ég biðst afsökunar á að koma aðeins of seint til leiks en við erum að ræða samgönguáætlun, annars vegar til fimm ára og hins vegar til fimmtán ára. Það sem mér finnst kannski athyglisverðast við þessar áætlanir er það sem ekki er í þeim. Mig langar þar með til að tala um Sundabraut. Sundabraut er framkvæmd sem er vörðuð svikum og óheilindum. Á sínum tíma, fyrir rúmum 22 árum ef mér skjöplast ekki, voru Kjalnesingar lokkaðir til að ganga til liðs við Reykjavíkurborg gegn loforði, herra forseti, um það að Sundabraut yrði tekin í gagnið á örskömmum tíma og samgöngur til og frá borginni, og sérstaklega gagnvart Kjalnesingum og öðrum sem búa í efri byggðum Reykjavíkur, myndu batna að mun. Í stuttu máli sagt hafa öll þau áform verið svikin eins og allir vita. Ekki nóg með það heldur hefur borgarstjórnarmeirihlutinn í Reykjavík unnið að því leynt og ljóst undanfarin ár að skerða möguleikana á því að Sundabraut verði að veruleika yfir höfuð. Annars vegar með því að selja fjárplógsmönnum lóðir akkúrat þar sem Sundabraut hefði annars tekið land, og þá er ég að tala um hérna megin við flóann. Hins vegar er nú verið að þrengja svo að vegstæðinu í kringum gömlu Áburðarverksmiðjuna í Gufunesi að Sundabrautinni er ýtt úr leið vegna bygginga, sem merkilegt nokk eiga að vera í svokölluðu bíllausu hverfi uppi við Áburðarverksmiðjuna. Vandséð er hvernig í veröldinni menn eiga að komast til og frá þeim stað án þess að eiga bíl en hugsanlega kemur þessi allsherjarlausn sem menn boða til með að bjarga því eins og öllu öðru sem á að bjarga hér.

En það er annað sem veldur áhyggjum. Í fyrsta lagi, eins og forseti veit, að fyrir fólk sem býr á Vesturlandi, fyrir fólk á Akranesi, Borgarnesi og vestur úr, myndi það muna mjög miklu ef Sundabraut yrði komið í gagnið og menn þyrftu ekki að fara í gegnum Mosfellsbæ og Ártúnsbrekku, með þeim töfum sem þar eru á hverjum einasta degi. Á hverjum einasta degi, herra forseti. Og það er þannig, og þetta veit forseti, að þeir sem sækja t.d. vinnu til Keflavíkurflugvallar héðan úr Reykjavík eru u.þ.b. jafn lengi á leiðinni í vinnuna og þeir sem vinna hér í Kvosinni en búa í Grafarvogi. Þetta er náttúrlega óþolandi en þannig er ástandið. Þetta myndi t.d. Sundabraut laga að miklu leyti gagnvart Grafarvogsbúum og þeim sem búa ofar. En það virðist algerlega ljóst að borgarstjórnarmeirihlutinn, undir stjórn Samfylkingarinnar, ætlar sér að eyðileggja þá framtíðarlausn með öllum tiltækum ráðum. Sundabraut er ekki eingöngu samgöngubót, hún er líka öryggisatriði. Og nú skulum við setja okkur í þau spor að rýma þurfi höfuðborgarsvæðið, t.d. út af jarðhræringum eða eldgosi. Það verður ekki gert með þeirri einu leið sem nú er út úr höfuðborginni.

Ekki nóg með það, herra forseti, heldur leggur borgarstjórnarmeirihlutinn stein í götu þeirra sem búa vestast á svæðinu. Seltirningar eru komnir í þá aðstöðu að allar leiðir þaðan eru tepptar og á að teppa enn frekar með fleiri gönguljósum. Hámarkshraðinn hefur verið lækkaður. Birkimelnum hefur verið breytt og hann þrengdur verulega. Það má segja að flestar leiðir frá Seltjarnarnesi til Reykjavíkur séu nú með þeim hætti að menn þurfa að ætla sér tvöfaldan þann tíma sem áður þurfti til að komast þessa leið. Borgarstjórnarmeirihlutinn sem nú starfar hér er að reyna að eyðileggja eins marga samgöngumöguleika og hægt er til að geta í fyllingu tímans hent inn því sem kallað er borgarlína. En enginn virðist vita hvað það er. Ég býst við að tala líka um borgarlínuna í málinu sem varðar sameiginlegt ohf.-fyrirtæki. Ég vænti þess að málið komist á dagskrá einhvern tímann á morgun eða síðar og ég mun náttúrlega tala um borgarlínuna líka í því máli. Það er svo hróplegt, forseti, að þetta skuli vera að gerast akkúrat núna.

Nú vek ég athygli hæstv. forseta á því að hingað inn rataði maður sem hefði ekki komist inn í forstofuna í Costco, ekki í jakka og ekki í skóm. Hann hefði ekki komist inn í forstofuna í Costco. Hann hefði ekki fengið kerru. En hann kemst inn í fundarsal Alþingis. Þetta er til skammar, forseti, en nóg um það.

Bara þetta eina atriði, að hægt sé að rýma höfuðborgarsvæðið ef til náttúruhamfara kemur, er ekkert smáatriði. Þess vegna er vítavert að þannig hafi verið gengið frá að verkefnið hafi eiginlega verið selt í hendur einhverra, því að það er ekki hér inni. Menn segja að þetta verði gert í einkaframkvæmd og rukkað verði fyrir það. Það er búið að leiða að því líkur í dag að einkaframkvæmd í samgöngugeiranum sé yfirleitt um 33% dýrari en framkvæmd sem yfirvöld sjá um sjálf. Það er náttúrlega áhyggjuefni. Það er í sjálfu sér líka óskiljanlegt af hverju framkvæmd sem lofað var fyrir 22 árum síðan, og hefur verið svikin fram á þennan dag, skuli rifin út úr samgönguáætlun og vísað inn í framtíðina, herra forseti. Auðvitað er verið að vinna að brýnum málum sem hafa dregist allt of lengi, samanber tvöföldun Reykjanesbrautar frá Hvassahrauni og í gegnum Hafnarfjörð. Auðvitað er það mikilsvert og þetta eru hættulegir vegir. En að gera þetta svona núna er algerlega forkastanlegt.

Það er reyndar annað atriði sem ég verð eiginlega að stinga hér inn. Nokkrum sinnum undanfarin ár hef ég lagt til hvernig leysa má umferðarþungann í austur- og vesturhluta Reykjavíkur, eða norður- og suðurhluta eftir því hvaða áttir menn nota í því samhengi, þ.e. frá Kvosinni og upp í Breiðholt, Árbæ og niður eftir aftur. Það er hægt að gera með einfaldri aðferð, herra forseti. Það er hægt að gera með því að Miklabraut–Hringbraut verði gerð að einstefnuakstursgötu frá Njarðargötu að Ártúnsbrekku. Þetta myndi þýða það, herra forseti, að á þeirri leið yrðu til reiðu fjórar og allt upp í sex til átta akreinar. Strætó gæti hæglega tekið eina akrein, herra forseti. Á sama hátt yrði Sæbrautin að einstefnuakstursgötu til vesturs frá Ártúnsbrekku og allavega að Snorrabraut, jafnvel niður að Skúlagötu eða alveg að Hörpunni. Það myndi kosta sáralítið fé. Það þyrfti að snúa við einhverjum umferðarskiltum eða taka þau jafnvel úr umferð.

Við skulum gá að einu af því að ég minnist á Hringbraut frá Njarðargötu, að nú er verið að byggja stærstu mistök Íslandssögunnar við Vatnsmýrina, þ.e. nýja Landspítalann. Engin breyting er á Hringbrautinni þarna í kring. Það er meira að segja þrengt að henni með því að setja þar niður eina stærstu íbúðabyggð sem hefur verið reist í Reykjavík í langan tíma. Hún er kölluð 102 og er reist á rústum neyðarbrautarinnar svokölluðu vegna þess að vilji borgaryfirvalda stendur til þess að eyðileggja flugvelli líka og ég mun koma að því, bæði í seinni ræðum en einnig í ræðunni um ohf.-ið Engu verður bætt við Hringbrautina í kringum spítalann og vegna þess að auðvelt er að vera örlátur á annarra manna fé hefur borgarstjóri, að því er virðist, fengið ríkisstjórnin í lið með sér til að setja Miklubraut í stokk. Upphaflega átti það að vera til að greiða fyrir umferð. Síðasta tillagan sem ég heyrði var að það væri svo gott að setja Miklubraut í stokk af því að þá væri hægt að byggja ofan á henni og þétta byggð. Það er alveg sama hvar borið er niður, menn tala með klofinni tungu eins og indíánarnir sögðu í gamla daga.

Það er ekki gott, herra forseti, að eiga viðskipti við aðila sem hagar sér eins og Reykjavíkurborg hefur gert síðan 2013, alla vega, þegar samningar voru gerðir við ríkið. Menn hafa einfaldlega ekki staðið við nokkurn skapaðan hlut. Það gerir það svo erfitt að taka mark á samgönguáætlun þegar nauðsynlegum stórframkvæmdum er varpað langt inn í framtíðina og þegar menn gera í því að eyðileggja möguleika til samgöngubóta sem væru til gæfu fyrir borgarbúa. Þetta er svo ömurlegt að það er eiginlega varla hægt að tala um það. Staðan er þessi engu að síður. Við verðum að búa við það á meðan þessum borgarstjórnarmeirihluta er bjargað æ ofan í æ. Það er búið að fella hann þrisvar. En það koma alltaf einhverjir bitlingaglaðir aðilar sem eru til í að leika hækju fyrir samstarfið og lemja áfram þetta dauða hross sem er því miður að ganga frá höfuðborg Íslands.

Þess vegna segi ég að nú er kannski mikilvægast að fá að vita hvað menn ætla sér með Sundabraut. Það er nauðsynlegt að fá að vita það. Og það er nauðsynlegt að fá að vita hvað verið er að gera uppi í Grafarvogi til að tálma Sundabrautina í þann enda líka. Það er búið að loka meginpartinum af Sundagörðum og Vogahverfi, sem er þar fyrir innan, selja svæðið í hendur fjárplógsmanna sem ryðja þar upp húsum. Maður hefur bara ekki séð jafn þétta byggð nokkurn tíma, held ég. Hún minnir helst á Ítalíu þar sem menn geta hengt upp þvottasnúrur milli blokka. Kannski verður það gert og þá geta menn dregið þvottinn á milli sín eins og gert er þar. Það kann vel að vera, alla vega trúi ég að þarna vindi vel. Þvotturinn ætti að þurrkast þokkalega. En þetta er ekkert gamanmál, herra forseti. Það er grafalvarlegt og í sjálfu sér finnst þeim sem hér stendur ekki vera færi á því að gera samkomulag við borgarstjórn Reykjavíkur meðan hún fer fram eins og hún hefur gert í nokkurn tíma og ætlar sér greinilega að halda áfram. Það er einfaldlega ekki hægt. Þessar samgönguáætlanir eru því miður því marki brenndar að þær munu ekki færa þessum landshluta mikla gæfu eða miklar framfarir.

Ég verð líka, herra forseti, að minnast á Reykjavíkurflugvöll þó að það verði kannski uppistaðan í ræðum seinna í þessari umræðu og í umræðunni um ohf.-ið. Staðreyndin er sú að það er búið að draga svo mjög úr þjónustu á Reykjavíkurflugvelli að til vandræða horfir. Reykjavíkurflugvöllur er nánast ekki lengur sá nauðsynlegi varavöllur sem hann áður var vegna þess að öryggisatriði á vellinum, bremsumælingar, skilyrðin, mönnun í öryggisþáttum, eru ekki eins og þau þurfa að vera við slíkar aðstæður. Ég man eftir því að í vetur var þingmaður nokkur hv. seinn til nefndarfundar frá Akureyri. Ég spurði hann hvort það hefði verið svona erfitt að fara frá Akureyri. Það var allt í lagi með Akureyri. Það var beðið eftir því að flugvöllurinn í höfuðborginni væri ruddur, svo að hægt væri að lenda á mánudegi að hausti. Þetta er makalaust. Þetta er algerlega makalaust. Síðan leyfa menn sér að setja peninga í það að kanna flugvöll sem á að byggja í 20 km loftlínu frá öðrum alþjóðlegum flugvelli og ofan á úfnu hrauni á vatnsverndarsvæði. Þótt ég væri rithöfundur gæti ég ekki galdrað fram slíka atburðarás. Ég hefði ekki hugmyndaflug í það en þetta ætla menn sér að gera og eru bara nokkuð stoltir. Það er með miklum ólíkindum, herra forseti. Þetta eru mál sem við þurfum greinilega að ræða mjög vel. Nú hef ég ekki farið út fyrir borgarmörkin, nema rétt suður í Hvassahraun, í þessari umfjöllun minni þannig að þetta eru atriði sem varða þau 230.000 sem búa á þessu svæði. Það er mjög alvarlegt hvernig þetta hefur dregist.

Við sjáum reyndar fram á það að gerð verður bragarbót á hættulegri leið milli Hveragerðis og Selfoss sem út af fyrir sig eru náttúrlega orðin eins og úthverfi frá Reykjavík fyrir marga. Þéttingarstefna borgarstjórnar Reykjavíkur hefur orðið til þess að menn forða sér frá Reykjavík og í ódýrara húsnæði í nágrannasveitarfélögum eins og í Hveragerði, Þorlákshöfn og á Selfossi. Svo er ekki hægt að hætta við að minnast á að samgöngur eins og þær eru í borginni fæla fyrirtæki héðan og menn eru bara nokkuð brattir með það. Það fara meira að segja ríkisstofnanir héðan af því að þeim er ekki vært hérna. Hafrannsóknastofnun er komin til Hafnarfjarðar og ég óska Hafnfirðingum til hamingju með það. Auðvitað er vel búið að þeirri stofnun í því fagra umhverfi þar sem sú bygging var sett niður. En mönnum virðist vera alveg sama um þetta. Og borgarstjórinn í Reykjavík og hirð hans eru bara þó nokkuð stolt af því að ætla sér að slátra 600 manna vinnustað, flugvellinum í Vatnsmýrinni og það er bara unnið að því öllum árum. Það er greinilegt, herra forseti, að þegar fyrirtæki og stofnanir fara út úr borginni verður hún svefnborg. Það verður engin framleiðsla hér og menn verða þá væntanlega að lifa hver á öðrum. Þeir geta selt hver öðrum lunda — ef einhver kemst niður á Laugaveg því að þangað kemst enginn sem er aldraður eða á erfitt með gang — eða selt hver öðrum ölkrús í öðru hverju húsi, sem er út af fyrir sig ágætisstarfsemi en það er ekki þannig að höfuðborg Íslands eigi endilega að byggjast upp á slíkri starfsemi. Hér þurfum við að hafa blómlega byggð. Við þurfum að hafa atvinnutækifæri en þetta verður allt að engu vegna þess hvernig komið er fyrir samgöngum í borginni.

Herra forseti. Ég var nú bara rétt að tala um höfuðborgina og næsta nágrenni hennar og er ekki kominn lengra þannig að ég verð að biðja hæstv. forseta að setja mig á mælendaskrá til að ég geti tekið til máls aftur þar sem nú er frá horfið.