150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[18:46]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég missti af byrjuninni á ræðunni hjá hv. þingmanni en kom inn í hana miðja. Satt að segja hélt ég að ég væri stödd í vitlausu máli, að dagskráin hefði gengið hraðar en ég bjóst við og hv. þingmaður væri að tala um þriðja dagskrármálið, heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu. En svo er ekki. Við erum að ræða samgönguáætlun og ég verð að segja, forseti, að ég er algerlega ósammála hv. þingmanni þegar kemur að skoðunum hans á borgarlínu, ég held að það sé afskaplega gott verkefni og ekki bara vegna almenningssamgangna heldur er þetta líka umhverfismál.

Það sem mig langaði til að spyrja hv. þingmann um er ástandið á vegakerfinu, á innviðunum, sem er víða afar slæmt út um landið og ég get talað fyrir mitt kjördæmi, Suðurland, sem mikil umferð hefur verið um vegna ferðamanna. Mikil aukning hefur orðið á undanförnum árum og fé skortir til að byggja upp vegi og eins fara í viðhald. Ég vil spyrja hv. þingmann, af því að hann hefur þekkingu á efnahagsmálum, hvort ekki hefði verið skynsamlegt á árunum 2013, 2014 og 2015, í tíð ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, að fara þá í miklar framkvæmdir og fjárfestingar í innviðum meðan enn var slaki í hagkerfinu. Er það ekki ástæðan fyrir því hversu illa við erum stödd núna að það var ekki gert í tíð þeirrar ríkisstjórnar?