150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[19:32]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Við ræðum hér sameiginlega tvö stór mál sem varða þjóðina alla og verðskulda því góða umræðu. Annað þeirra er tillaga til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2020–2034, það eru býsna mörg ár þar undir, inn í framtíðina, og hitt er samgönguáætlun til fimm ára sem tekur þá til þess sem er nær okkur í tíma.

Ég held að óhætt sé að segja að sjaldan eða aldrei hafi verið brýnna að taka samgöngumál okkar Íslendinga til rækilegrar umræðu og gera mikið á næstu árum. Við vitum að innviðaframkvæmdir af mörgu tagi hafa að mörgu leyti setið á hakanum um ansi langt skeið. Ég held að það sé ekki ofmælt að á næstu árum og jafnvel áratugum þurfum við að gera stórátak í innviðafjárfestingum og gildir þá einu hvort við erum að tala um vegaframkvæmdir, hafnarframkvæmdir, framkvæmdir vegna flugvallarmála eða framkvæmdir fyrir almenningssamgöngur. Af nógu er að taka á öllum þeim sviðum.

Það árar nú einu sinni þannig í þjóðfélagi okkar um þessar mundir að við þurfum ekki bara á þessu að halda vegna þess að við þurfum að laga innviði sem við höfum vanrækt um langt skeið heldur þurfum við líka að nota tækifærið eða öllu heldur taka mið af aðstæðum sem eru í efnahagsmálum okkar sem gera það að verkum að það er kjörið tækifæri, af ýmsum ástæðum, til að fara í þá miklu uppbyggingu sem þarf að vinna að.

Það er ekki ólíklegt, a.m.k. núna á næstu misserum, að við munum glíma við verulegt atvinnuleysi. Framkvæmdir í samgönguinnviðum af ýmsu tagi geta í fyrsta lagi að einhverju marki leitt til þess að það dragi úr slíku atvinnuleysi. Það getur líka leitt til þess að það sé að mörgu leyti hagstæðara að fá verktaka til verkanna þar sem það kann að vera líklegt að þeir séu fleiri um hituna og þess vegna sé auðveldara að fá gott verð, ef svo má segja, í framkvæmdirnar. Síðan, a.m.k. nú um stundir, liggur ljóst fyrir að fjármagnskostnaður er í sögulegu lágmarki hér á landi og höfum við Íslendingar sjaldan eða aldrei búið við lægra vaxtastig þannig að það að ráðast í framkvæmdir og jafnvel taka nauðsynleg lán til þeirra er óvenjuhagstætt um þessar mundir. Þetta er kannski svona hið almenna um þær aðstæður sem við búum við í efnahagslegu tilliti sem gera það skynsamlegt og raunar nauðsynlegt að takast á við þau verkefni. Það er ekki bara það að hugsa til þess að vonandi muni ferðaþjónustan taka við sér og hingað komi ferðamenn aftur í auknum mæli og þó að sá sem hér stendur vilji ekki fullyrða eða lofa því að fjöldi þeirra verði a.m.k. alveg á næstu misserum sá sami og var, þá er ljóst að þeir innviðir sem ferðamennirnir nota eru allsendis ófullnægjandi og víða þarf að gera bragarbót og það vita allir.

Þetta varðar auðvitað aðgengi víða að vinsælum ferðamannastöðum og þjóðvegi sem liggja þangað. En það eru líka aðrar ástæður fyrir því að það er mikilvægt og brýnt að geta tekið innviðafjárfestinguna föstum tökum. Mig langar að nefna sérstaklega í því samhengi að nú eru að verða breytingar í hugsun okkar, held ég, um samgöngur og hefur það ekki síst með það að gera að nú er mjög ör tækniþróun og verður sjálfsagt enn hraðari í framtíðinni. Það blasir nú við okkur flestum, og tölur sýna það, að við erum í stórauknum mæli að færa bifreiðaflota okkar yfir í það að nýta aðra orkugjafa en jarðefnaeldsneyti og það er auðvitað gott af mörgum ástæðum. Í fyrsta lagi fylgir mengun jarðefnaeldsneytinu og við viljum draga úr henni. Í öðru lagi munum við, ef vel tekst til, nánast alfarið geta nýtt innlenda orkugjafa til að knýja áfram bifreiðar á vegum landsins og önnur samgöngutæki, hvort sem það er þá rafmagn eða metan eða hugsanlega aðrir aflgjafar sem koma til greina.

Þess vegna er afar brýnt að við hröðum t.d. eins og kostur er að gera það vænlegt fyrir rafbílaeigendur að fara um landið. Nú hefur slíkum bílum fjölgað mikið að undanförnu og í ljós kemur að þrátt fyrir að hafa talað um að við ætluðum að undirbúa okkur vel og vera tilbúin til að taka á móti þeirri breytingu þá liggur alveg fyrir að við þjóðvegina, og svo sem jafnvel utan þeirra líka, er aðstaða bifreiðaeigenda til að fá rafmagnshleðslu óviðunandi. Íslendingar sem munu ferðast í miklum mæli hér innan lands í sumar hafa verið hvattir mjög eindregið til þess og munu fara á þjóðvegi landsins en rafbílaeigendur hafa verið varaðir við því að þeir muni trúlega lenda í töfum við að fá rafmagn á bíla sína vegna þess að hleðslustöðvar eru of fáar og of afkastalitlar. Það er eiginlega fráleitt að sú staða komi upp að fólk sé að reyna að hugsa til framtíðar og draga úr mengun og nýta sér nýjustu tækni en þá séu innviðir okkar ekki tilbúnir til að taka við því. Það er hætt við að komið geti bakslag í það að fólk sé viljugt til að taka upp nýja hætti ef það verður til þess að það lendir þá frekar í vandræðum en aðrir við að komast um landið og vegakerfið okkar. Þessu þarf að huga mjög sterklega að og er kannski ekki nóg að gert í þeim áætlunum sem hér liggja fyrir því það sannast sem við tölum nú gjarnan um að við Íslendingar erum býsna nýjungagjarnir. Þegar við tökum loksins við okkur og ætlum að fara að taka upp nýja tækni erum við oft fljót til. Það sýnir mikill vöxtur í því að taka upp þessa tækni í bílum. Samgöngurnar eru líka mikilvægar vegna þess að það skiptir máli hvernig samsetning umferðarinnar er, hvers konar ökutæki er á ferðinni og hvernig það fer með vegakerfið svo að það þoli einfaldlega alla þá umferð og við vitum að vegakerfið okkar gerir það að mjög takmörkuðu leyti og þess vegna þurfum við að bæta hér úr.

Mig langar rétt að tæpa á öðru í þessu samhengi. Það er að við erum núna, að hluta til í gegnum þessar áætlanir en líka vegna þess að það er bráð efnahagsleg nauðsyn að vera með mikið af stórframkvæmdum sem geta falist í því að byggja stór og mikil samgöngumannvirki, taka upp miklar breytingar í almenningssamgöngum og þess háttar og þetta eru allt mjög stór verkefni — þess vegna þarf að huga býsna vel að því að vel sé að verki staðið, að hlutirnir séu nokkuð vel ígrundaðir og að við séum búin að gera góðar áætlanir og reyna að gera okkur sem best í stakk búin til þess að þær framkvæmdir takist vel og þá ekki bara að því leyti sem við horfum gjarnan til, sem er það hvort verkefnin standist kostnaðaráætlanir og tímaáætlanir. Það hefur viljað brenna við að við höfum átt svolítið erfitt með þetta, að þetta standist.

Ég vil bæta þriðja þættinum í þetta allt saman sem er að það sem gert er sé til þess fallið að auka hagkvæmni og skilvirkni í samfélaginu. Það er þjóna þær framkvæmdir, sem lagt er í, þeim tilgangi sem til er ætlast? Fyrir leikmann getur verið mjög auðvelt að segja: Væri ekki sniðugt að setja brú hér og göng þar eða vegarspotta hér? En menn eru kannski ekki búnir að hugsa til enda hvort það er endilega það skynsamlegasta sem á að gera á þeim stað. Það kann að vera að aðrir möguleikar komi til greina. Menn þurfa líka að velta fyrir sér hvaða samfélagslegu áhrif það hefur. Ég ætla nú ekki að segja að það sé þannig en stundum var a.m.k. sá brandari sagður í mínu ungdæmi, og er nú sjálfsagt varla fyndinn, að þegar loks var malbikaður vegur í eitthvert þorpið eða lögð var nauðsynleg brú þá var það næsta sem gerðist að allir fóru yfir brúna og komu aldrei aftur. Þetta veit ég að er náttúrlega kannski ekki alveg satt en þetta segir að við þurfum að vita til hvers við erum að gera hlutina. Ég er ekki að segja að hér sé allt í molum í þeim efnum og held að yfirleitt séu þær framkvæmdir sem við ráðumst í að þessu leyti skynsamlegar. En þær eru það ekki endilega alltaf. Og ég tek þetta aðeins upp hér vegna þess að fyrir tveimur árum, snemma árs 2018, samþykkti Alþingi með atkvæðum allra þingmanna — a.m.k. sem þá voru í salnum, ég held að þeir hafi nú verið einhvers staðar í námunda við 50, en það skiptir kannski ekki öllu máli — litla þingsályktunartillögu sem ég var upphafsmaður að. Mig langar til að lesa hérna tillögutextann því hann er stuttur og býsna skýr varðandi þetta sem ég er að tala um, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að útfæra stefnumörkun með það að markmiði að tryggja gæði, hagkvæmni og skilvirkni opinberra fjárfestinga allt frá hugmyndastigi til framkvæmda og út ætlaðan líftíma þeirra. Ráðherra skipi fimm manna starfshóp til þess að stofna til formlegs samstarfsvettvangs stjórnvalda, atvinnulífs og fræðasamfélags um gerð rammaáætlana til þriggja ára í senn til þess að byggja upp þekkingu og færni og efla rannsóknir á sviði gæða, hagkvæmni og skilvirkni opinberra fjárfestinga. Ráðherra leggi fram og kynni Alþingi tillögur sínar eigi síðar en 1. nóvember 2018.“

Það eru mér nokkur vonbrigði að hæstv. fjármálaráðherra hafi enn ekki sinnt þessari tillögu. Ég hef gengið eftir því oftar en einu sinni hvað sé að frétta af henni, hvort menn ætli sér ekki að reyna að hrinda þessu í framkvæmd af því að þetta er rammi sem er hugsaður til þess að við hugsum snemma, gerum áætlanir snemma, gerum ábatagreiningar, samfélagsgreiningar o.s.frv. Síðan eru settar vörður inn í verkefnið til að athuga, bæði alveg frá upphafi og þangað til verkefninu er lokið, hvort við séum enn á réttri leið og hvort gera þurfi úrbætur o.s.frv. Ég held að það sé eitt af því sem hefði verið mjög gott að hafa í fullkomnu lagi, og nú er ég ekki að segja, eins og ég sagði áðan, að allt sé í molum, það vil ég alls ekki segja því það er sannarlega ekki þannig. En við getum gert miklu betur. Við getum vitað miklu betur hvað við erum að gera, til hvers og tryggt að vel sé að verki staðið þannig að allir séu þá á endanum ánægðir sem a.m.k. stóðu að verkinu, það var framkvæmt eins og átti að gera og skilar þeim árangri sem að var stefnt, því að alltaf er einhver tilgangur með því að ráðast í verkefni og fjárfestingar og gildir það ekki síður og kannski enn fremur um stór mannvirki sem eru partur af samgönguinnviðum okkar í víðum skilningi. Þetta er mjög oft dýrt og stórt og umfangsmikið, hefur áhrif á umhverfi og líf borgaranna og þess vegna er svo áríðandi að þarna takist vel til. Eins og ég sagði áðan hef ég orðið fyrir svolitlum vonbrigðum með það hvað lítið hefur í sjálfu sér verið gert með þetta allt saman.

Ég held nefnilega að það sé svo mikilvægt að við höfum sterka og góða sýn og auðvitað birtist sýn hér í þessum plöggum og sumt af slíkri sýn verður nú dálítið klisjukennt. Ég ætla að vitna hér í samgönguáætlun fyrir árin 2020–2034. Þar segir, með leyfi forseta:

„Ísland verði í fremstu röð með trausta og örugga innviði, öflug sveitarfélög, verðmætasköpun og framsækna þjónustu. Tækni tengi byggðir landsins og Ísland við umheiminn í jafnvægi við umhverfið.

Meginmarkmið áætlana í samgöngu- og sveitarstjórnarmálum:

– Þjónusta samgöngu- og fjarskiptakerfa mæti þörfum samfélagsins.

– Sjálfbærar byggðir og sveitarfélög verði um land allt.

Fjárveitingar til einstakra málaflokka og tímasetning, svo og til einstakra verkefna sem áhersla er lögð á að komist til framkvæmda á áætlunartímabilinu 2020–2034, byggist á framangreindum meginmarkmiðum ásamt áherslum ráðherra og ríkisstjórnar.“

Nú er þetta auðvitað þess eðlis að þetta getum við öll tekið undir en innihaldið er kannski svolítið rýrt. Auðvitað viljum við öll að Ísland verði í fremstu röð. En hvað er undir þessari sýn? Hvað felst í henni? Felst það í því að það séu tveir, þrír flugvellir (Forseti hringir.) í hverjum fjórðungi? Felst það í því að við förum að nota jarðgöng í auknum mæli? Felst það í því að við ætlum að fara að leggja járnbrautir? (Forseti hringir.) Í hverju felst það? Það er svolítið sem mér finnst vanta. (Forseti hringir.) En ég kemst ekki lengra að þessu sinni þannig að ég læt hér staðar numið.