150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[20:23]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Karl Gauti Hjaltason) (M):

Herra forseti. Við ræðum enn samgönguáætlun. Ég mælti fyrir nefndaráliti 2. minni hluta sl. mánudagskvöld og síðan hefur þetta verið til umræðu. Ég er að koma í mína aðra ræðu og ætla að fara örlítið í einstaka þætti, einstök áhugamál, varðandi samgöngur. Ég fór yfir þetta allt saman síðast, þ.e. nefndarálitið og örlítið meira, en nú ætla ég að ræða afmarkaða hluta sem ég hef sérstakan áhuga á. Í fyrsta lagi ætla ég að fara yfir og benda á gjaldtökuleiðirnar. Ég er ekki alveg viss um að menn átti sig á því hversu ólíkar þær eru og hversu margar, og hvenær og hvernig það komi fram. Ég ætla örlítið að impra á því í þessari ræðu ásamt öðru.

Það er nefnilega þannig, herra forseti, að þetta er ekki bara ein hugmynd heldur eru þetta fleiri hugmyndir. Í fyrsta lagi, og nú byrja ég upptalninguna, er að finna hugmynd um gjaldtöku í samgönguáætlun. Og hvernig hljóðar hún? Í nefndaráliti meiri hlutans segir, undir kafla um jarðgöng:

„Nefndin styður einnig þá framtíðarsýn að bein framlög úr samgönguáætlun og jarðgangaáætlun standi undir hluta framkvæmdakostnaðar jarðganga, og að gjaldtaka af umferð fjármagni hluta auk þess sem hún greiði fyrir rekstur og viðhald ganganna.“

Þetta er úr nefndaráliti meiri hluta samgöngunefndar og fjallar um jarðgöng. Þarna er sem sagt verið að tala um gjaldtöku til að standa undir rekstri og kostnaði við jarðgöng.

Við erum að ræða tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun núna, þannig að ég var að vitna í hana hér. Þarna er hugmynd um gjaldtöku. Í frumvarpi sem lagt var fram nýlega — 1. umr. er búin en það bíður frekari afgreiðslu, það er frumvarp um opinbera hlutafélagið, þ.e. samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir — er að finna áætlanir um þessi svokölluðu tafagjöld á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. að á stofnbrautum á höfuðborgarsvæðinu verði sett upp umferðargjöld sem kölluð eru flýtigjöld, það heitir víst flýtigjöld núna, og kemur það fram í frumvarpinu að þessar framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu verði fjármagnaðar með þessum flýti- og umferðargjöldum og hugsanlega líka til að greiða fyrir almenningssamgöngum, gera það óþægilegt að vera á fjölskyldubíl og leggja gjöld á ferðir fjölskyldubifreiða um vissa hluti borgarinnar og fá fólk þannig til að hoppa upp í almenningsvagna fremur en að velja fjölskyldubílinn. Þetta er hugmynd númer tvö og hún liggur líka fyrir þinginu núna, þ.e. svokölluð tafagjöld eða flýtigjöld á höfuðborgarsvæðinu. Ég nefndi fyrst jarðgangahugmyndina sem hægt er að finna í áliti meiri hlutans, samgönguáætlun núna. En þriðja hugmyndin er frumvarp sem bíður umræðu en hefur einungis verið lagt fram, þ.e. frumvarp um samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir. Það eru þessi sex verkefni, Sundabraut, tvöföldun Hvalfjarðarganga, Hornafjarðarfljót, Ölfusárbrú, láglendisvegur í Vík í Mýrdal og Öxi á Austfjörðum. Það er þriðja hugmyndin um gjaldtöku sem felst í því frumvarpi. Þar er rætt um að þessar sex framkvæmdir, þegar og ef þær koma til framkvæmda, verði fjármagnaðar að hluta eða öllu leyti með veggjöldum.

Og af hverju er ég að minnast á þetta og telja upp þessi þrjú mál sem eru til meðferðar á þinginu í dag, öll til meðferðar óafgreidd en sum komin lengra en önnur? Ég minnist á þetta, herra forseti, vegna þess að allar þessar þrjár leiðir eru mismunandi og nálgun stjórnvalda á leiðirnar er misjöfn. Þetta eykur flækjustigið auðvitað verulega. Það eykur flækjustigið verulega þegar þetta er sett fram með þeim hætti að verið er að tala samtímis um þrjár mismunandi gjaldtökur í þremur mismunandi og ólíkum verkefnum. Þetta eru allt ólík verkefni, eitt innan höfuðborgarsvæðisins, flýtigjald, jarðgöng sem hugsanlega á að búa til einhvers staðar, taka gjöld þar, og síðan þessi sex samvinnuverkefni sem er þá þriðja leiðin. Ég hef í sérálitum við einhver af þessum frumvörpum viðrað þá skoðun mína að í fyrsta lagi eigi að ræða gjaldtökuna almennt í samhengi og með skýrum hætti en ekki óljósum og ekki með þeirri óljósu framsetningu á þinginu sem þarna birtist. Við eigum að ræða þetta opinskátt og af alvöru og taka alla þætti inn í einu en ekki rugla fólk svona í ríminu eins og ég hef nú kannski gert sjálfur að einhverju leyti. En þetta eru sem sagt þrjár mismunandi nálganir á gjaldtöku vegna samgöngumannvirkja, þrjár mismunandi leiðir sem liggja allar fyrir þinginu núna. Þrjár gjaldtökur, þrenns konar aðferðir, þrenns konar nálganir.

Ég hef lagt áherslu á að nauðsynlegt sé að kveða skýrt á um viðmiðunarfjárhæð veggjalda sem allra fyrst. Það hefur ekki verið gert. Menn nefna einhverjar tölur út í loftið en það er ekkert fast í hendi þar. Þar verða stjórnvöld einnig að koma fram með það nákvæmlega hvernig þau hugsa sér að útfæra afsláttarkjör veggjalda. Ég hef lagt sérstaka áherslu á það að stjórnvöld lækki, um leið og veggjöld verða lögð á, aðrar álögur á bifreiðaeigendur til móts við þau gjöld. Ég hef einnig lagt áherslu á það, herra forseti, að menn forðist margfeldisáhrif við innheimtu veggjalda. Við vorum að tala um samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir, þar sem hægt er að nefna Hornafjarðarfljót, Ölfusárbrú og Mýrdalinn. Ef notandi keyrir frá Hornafirði til Reykjavíkur gæti hann keyrt í gegnum öll þessi hlið sem ég var að nefna, hann þyrfti að keyra í gegnum öll þessi þrjú hlið nema hann færi einhvern krók fram hjá þeim. Hann þyrfti að borga þrisvar. Síðan væri hann kominn í úthverfi Reykjavíkur og þyrfti hugsanlega að borga flýtigjöld eða tafagjöld innan borgarmarkanna. Ef hann ætlaði að fara niður í miðbæ eða á Landspítalann þyrfti hann hugsanlega að fara í gegnum eitt eða tvö hlið og borga þessi flýtigjöld þannig að hann kæmist leiðar sinnar. Hann gæti hugsanlega þurft að borga fjórum til fimm sinnum á leiðinni og það er ekki svo langt í þetta vegna þess að þessar framkvæmdir, Ölfusárbrúin, Mýrdalurinn og Hornafjarðarfljótið, eru mjög framarlega í framkvæmdaröðinni þegar samvinnuverkefnin sex eru tekin saman. Það er lengra í Sundabraut, það er lengra í Hvalfjarðargöngin þannig að þessi notandi myndi lenda í margfeldisáhrifum og ég tel að stjórnvöld eigi að skýra það nákvæmlega út hvernig þau hafa hugsað sér að koma til móts við slíka notendur. Ég er búinn að nota allt of mikinn tíma í þetta, sem ég ætlaði þó að nota enn þá meiri tíma í.

Ég ætla að vekja athygli á grein sem birtist í Kjarnanum, herra forseti, aðsendri grein skrifaðri af Þórarni Hjaltasyni umferðarverkfræðingi þar sem hann er að deila á framsetningu borgaryfirvalda varðandi samgönguskipulag á höfuðborgarsvæðinu. Í þessari grein kemur fram að hann telur að borgaryfirvöld, í þessum mikilvægu og rándýru skipulagsmálum, fari ekki fram með rökvissum hætti heldur með áróðurstengdum slagorðum til að vinna svokallaðri borgarlínu fylgi. Hann rökstyður mál sitt mjög vel í þessari grein og ég ætlaði að fara í gegnum hana en ég sé að ég get ekki nema rétt byrjað á því. Hann ber þetta til að mynda saman við aðrar borgir og nefnir dæmi um að þeir sem eru að flytja þennan áróður fyrir borgarlínu hafi valið borgir sem eru alls ekki sambærilegar, séu að bera sig saman við það sem best gerist erlendis, eitthvað sem er mjög sjaldgæft — bera sig saman við borgir sem eru kannski að fara svipaða leið sem eru þá jafnvel stærri — og að verið sé að leyna staðreyndum í því sambandi. Allt sé það gert í þeim tilgangi að gera borgarlínuna, þær framkvæmdir sem henni eru tengdar, fýsilegri fyrir þá sem munu borga brúsann, mestmegnis ríkisvaldið og svo sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu. Ég hvet ykkur til að lesa þessa grein sem er ansi löng. Ég ætla ekki að lesa hana alla en ég ætla að grípa niður í hana. Hann talar um sambærilega borg sem minnst er á á vefsíðu borgarlínu, þ.e. Stavanger. Þar hafa áætlanir hækkað, en þær hafa verið svipaðar og þær áætlanir sem við höfum verið að sjá varðandi borgarlínu, kannski 50 milljarðar. Nýjustu áætlanir um borgarlínu í Stavanger, sem er reyndar minni að umfangi en borgarlínan sem við erum að tala um, hljóða upp á 170 milljarða íslenskra króna þannig að menn eru ekki að leggjast í neina smávegferð að fara af stað í svona verkefni. Þessi umferðarsérfræðingur og verkfræðingur nefnir einnig í grein sinni að fara megi miklu ódýrari leið sem þjóni jafnvel sama tilgangi og skili sama árangri, þ.e. að kannski séu gerðar einhverjar akreinar á umferðarmestu götunum en ekki, eins og við höfum verið að fylgjast með, leggja rauðan dregil um allt höfuðborgarsvæðið fyrir þessa vagna sem áttu fyrst að vera léttvagnar en eru nú kallaðir, held ég, hraðvagnar. Það munar víst miklu þó að ég hafi ekki kynnt mér það nákvæmlega hver munurinn er. Þetta átti víst að vera léttlestakerfi en nú er rætt um hraðvagnakerfi sem er eitthvað ódýrara en það er það sama eða svipað og þeir í Stavanger ætla sér að koma upp. Ég hvet áheyrendur til að kynna sér þetta á vefsíðu Kjarnans, þessa grein eftir Þórarin Hjaltason. Hann gerir líka athugasemdir við það að á vefsíðu borgarlínu er spurt: Hvað gerist ef við sleppum borgarlínu? Síðan er því svarað á vefsíðunni: Ef ekki verður af borgarlínu er óhjákvæmilegt að fjárfesta í vega- og gatnakerfi höfuðborgarsvæðisins fram til 2040 fyrir allt að 250 milljarða kr. Þrátt fyrir ofangreindar fjárfestingar munu umferðartafir nær tvöfaldast fram til 2040.

Síðan segir Þórarinn, með leyfi forseta:

„Þetta er vægast sagt mjög villandi framsetning. Lesandi getur hæglega fengið á tilfinninguna að með Borgarlínunni megi spara megnið af þessum 250 milljörðum og umferðartafir aukist miklu minna.“

Síðan segir hann — ég er búinn með tíma minn — að svo sé alls ekki og um sé að ræða villandi framsetningu á vefsíðu borgarlínu í áróðursskyni.