150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[20:41]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Karl Gauti Hjaltason) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Guðjóni Brjánssyni fyrir andsvarið. Honum var mikið niðri fyrir og er ég ekki hissa á því. Þetta er búið að vera í bígerð og undirbúningi mjög lengi. Hann segir að þessi sveitarfélög hafi loksins leyst þetta mál eða sjái fram á að það leysist eftir langa mæðu, eins og hv. þingmaður orðaði það svo skemmtilega, og það er alveg rétt hjá honum. Höfuðborgarsvæðið er búið að vera í herkví áratugum saman, sérstaklega síðustu tíu árin, á sviði samgangna. Af hverju skyldi það vera, hv. þingmaður? Vegna þess að gerð var tilraun 2011 með samkomulagi um að efla almenningssamgöngur. Árið 2011, ef ég fer rétt með, var gerður samningur og ríkið lagði 1 milljarð á ári til að reyna að auka hlut almenningssamgangna. Í stuttu máli þá mistókst sú tilraun. En borgarstjórnarmeirihlutinn er staðráðinn í því að halda áfram á sömu leið og reyna að efla almenningssamgöngur þótt það hafi mistekist svona hrapallega síðustu níu árin.

Á meðan á þessari tilraun stóð, síðustu níu árin, hefur verið framkvæmdastopp, herra forseti, á höfuðborgarsvæðinu og það sjá allir. Það þarf ekki nema ökumann á fjölskyldubílnum til að sjá það vegna þess að hann er stopp. Það er alveg sama hvert hann ætlar að fara, hann er alls staðar stopp. Það er vegna þess að ekkert hefur verið gert til þess að rýmka fyrir fjölskyldubílnum síðustu níu árin, það hafa ekki verið gerð mislæg gatnamót, ekki verið breikkaðir vegir, ekki verið lagðar nýjar stofnbrautir. Það hefur ekkert verið gert. Það hefur verið framkvæmdastopp, herra forseti. Og þess vegna varpa sveitarfélögin öndinni léttar, eins og hv. þingmaður orðaði það. Ég mun í seinna andsvari skýra þetta örlítið betur út.