150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[20:43]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Guðjón S. Brjánsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Karli Gauta Hjaltasyni fyrir andsvarið. Þetta hefur tekið langan tíma því að það hafa margir komið að verkefninu og það er styrkur verkefnisins að það er samstarfsverkefni margra sveitarfélaga. Hv. þingmaður tekur djúpt í árinni þegar hann segir að það hafi verið algert framkvæmdastopp. Menn hafa gagnrýnt að framkvæmdir á þessu gríðarlega umferðarþunga svæði hafa verið of naumt skammtaðar. En varðandi kostnaðinn við þetta þá er þetta kostnaðarsamt, eins og ég nefndi, en gerðar hafa verið áætlanir og eins og hv. þingmaður þekkir af langri reynslu og störfum, eru þetta flókin verkefni erfið viðfangs. Við eigum að slá eins marga varnagla í svona verkefni og við mögulega getum og fara varlega. Við eigum að krefjast þess að farið sé af ráðdeild og varúð með allt okkar fé sameiginlega. En ég leyfi mér að fullyrða að menn hafa tekið alla þætti málsins til verulegrar skoðunar.

Hv. þingmaður kom inn á grein sem skrifuð hefur verið af sérfræðingi sem er ekki sammála og við eigum auðvitað að hlusta á gagnrýnisraddir en við eigum ekki að slá úr og í og við megum ekki reka lestina. Við þurfum áfram, því að tíminn líður. Framtíðin bíður okkar. Þetta eru samgönguhættir sem eru alþekktir víða um lönd og verkefnið liggur alveg ljóst fyrir. Það er búið að skipuleggja það í þaula. Ég bendi hv. þingmanni á ágæta sýningu sem er hér hinum megin við götuna, í Ráðhúsinu, um þetta stóra verkefni. Þar má sjá bæði í máli og myndum hvernig það er hugsað og skipulagt.