150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[21:25]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Þar sem ég sat og fylgdist með umræðunni beið ég spenntur eftir að hv. þm. Oddný Harðardóttir yrði kynnt til leiks og gerði mér ekki grein fyrir því að komið væri að mér. En auðvitað tek ég því fagnandi að taka til máls. Og þó að það sé kannski ekki alveg á dagskránni verð ég að geta þess að síðasti ræðumaður, hv. þm. Guðjón Brjánsson, kom mér og öðrum örugglega skemmtilega á óvart með því að lýsa því yfir að Strandamenn myndu geta snúið við sinni íbúaþróun með nýjungum í landbúnaði. Þetta þykja mér mikil tíðindi en auðvitað vona ég að hann verði sannspár. Ekki mun standa á okkur Miðflokksmönnum að taka á með honum ef hann hefur hugmyndir um að efla íslenskan landbúnað.

Að öðru leyti, hæstv. forseti, gladdist ég mjög hér áðan þegar rödd skynseminnar í Sjálfstæðisflokknum, hv. þm. Sigríður Á. Andersen, flutti hér skelegga ræðu sem stakk nokkuð í stúf við það sem helsti sérfræðingur Sjálfstæðisflokksins í almenningssamgöngum, hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir, hefur haldið fram í ræðustól oftar en einu sinni. Eins og ég segi örlaði þarna á rödd skynseminnar í Sjálfstæðisflokknum um almenningssamgöngur. Það var á þingmanninum að heyra að hún væri ekki alveg jafn fús til þess að moka peningum í Samfylkingarstjórnina í Reykjavík og restin af Sjálfstæðisflokknum virðist vera til í, og kemur á óvart.

En ég ætlaði nú ekki að fjalla um þetta. Ég ætlaði reyndar að tala um strætisvagnakerfið að einhverju leyti. Fyrir níu árum og 9 milljörðum síðan samþykkti ríkisstjórnin sem þá sat að leggja til 1 milljarð á ári í almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Þá var hlutfall þeirra íbúa sem notaði almenningssamgöngukerfið 4% en eftir níu ár og 9 milljarða er staðan sú, hæstv. forseti, að 4% nota almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Það hefur sem sagt enginn árangur orðið af þessari tilraun, eigum við að segja það. Þetta er samkvæmt skýrslu sem ég las um daginn frá Mannviti verkfræðistofu. Þar kom þetta fram alveg í byrjun skýrslu að svona væri þetta vaxið. Það er athyglisvert ef menn ætla áfram að opna Fjársýslu ríkisins alveg upp á gátt og moka peningum með heykvíslum í áframhaldandi tilraunir í almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu og það enga smávegis tilraun heldur tilraun sem kostar tugi milljarða. Og ekki er öllum ljóst hvernig hún á að vera.

Til dæmis hefur hæstv. fjármálaráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins, lýst því yfir í ræðustól Alþingis, í svari við fyrirspurn frá hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, að hann viti ekki hvað borgarlína sé. Hann er samt reiðubúinn til þess að offra 50 milljörðum af fé ríkisins í tilraun sem hann veit ekki hvað er. Þetta minnir mig eiginlega á gamla sögu um mann sem tældi fyrst nagdýr með sér með því að leika á flautu en endaði á því að skaða börn í þorpinu því að þau fylgdu honum í blindni. Manni finnst einhvern veginn að þarna sé Sjálfstæðisflokkurinn að byggja áfram undir fallinn Samfylkingarmeirihluta, sem er studdur af bitlingaþurfi hækjum.

Talandi um það að gera samninga við Reykjavíkurborg, herra forseti, þá er það ekki mjög einfalt mál vegna þess að samningar virðast ekki skipta þá sem ráða ferðinni í Reykjavíkurborg neinu máli. Ég ætla að nefna dæmi. Það er þannig, og því hefur verið haldið mjög á lofti, að allir bæjarstjórar í nágrannasveitarfélögunum hafa skrifað undir sérstakan sáttmála, samgöngusáttmála. Rétt utan borgarmarkanna, þar sem ég bý, er búið að þrengja mjög að ferðum að og frá, þ.e. á Seltjarnarnesi. Eftir að Seltirningar voru vélaðir til að leggja fé í þessa stórkostlegu tilraun hefur verið þrengt að. Ég heyrði borgarstjórann lýsa því yfir um daginn að það væri ómótstæðileg hugmynd að setja hér á hafnarstrætó svokallaðan, þ.e. siglandi strætó sem væri þá væntanlega einhver viðbót við borgarlínuna. Ég vænti þess að hann bíði örugglega eftir því að Sjálfstæðisflokkurinn opni pyngjuna til þess líka, herra forseti. Hugsanlega eru menn, með því að þrengja að Hringbrautinni, með því að þrengja að Birkimelnum, með því að setja ótal umferðarljós á Eiðsgrandann, að byggja undir að það verði hafnarstrætó annaðhvort úr Bakkavör eða litlu smábátahöfninni á Seltjarnarnesi til að komast hingað til Reykjavíkur. Það verður fróðlegt að sjá hvernig það verður. En bæjarstjóri Seltjarnarness hefur komið á framfæri mótmælum, skiljanlega, vegna þess að þetta tefur fólk sem þarf til Reykjavíkur til vinnu, í tómstundir og annað. Þetta er náttúrlega líka öryggisatriði vegna þess að það er alveg eins með þetta og það sem ég minntist á í fyrri ræðu minni hér í dag, þ.e. Sundabrautina og þátt hennar í því að rýma höfuðborgarsvæðið ef hér kæmi t.d. til náttúruhamfara. Ég vona sannarlega að menn sitji ekki uppi með það einhvern tímann innan skamms að hér verði einhverjar jarðhræringar og/eða eldsumbrot sem geri það nauðsynlegt að tæma höfuðborgarsvæðið með stuttum fyrirvara vegna þess að eins og nú er í Reykjavík er ég hræddur um að það tæki býsna langan tíma og yrði býsna harðsótt.

Ég ætla að eyða þeim litla tíma sem ég á eftir til að fara aðeins yfir strætisvagnana eins og ég ætlaði að gera í upphafi. Það eru þessi 4% sem nýta sér almenningssamgöngur og það hefur ekkert breyst í níu ár eða 9 milljarða. Mér finnst reyndar að hugsanlega væri hægt að fara einhvern milliveg áður en menn fara að hella hér niður 50 milljörðum af skattfé í að búa til einhverja draumsýn sem enginn veit hvernig á að vera. Það væri að hressa við strætisvagnakerfið í Reykjavík. Ég held að ég verði að halda áfram með þetta í næstu ræðu en ég ætla samt að drepa á þetta strax af því að menn hafa talað dálítið um það í umræðunni um samgöngusáttmálann að við eigum að leita til útlanda eftir fyrirmyndum. Ég er alveg til í það. Í Reykjavík hafa menn að vísu alltaf verið dálítið djarfir þegar þeir fara til útlanda til að sækja sér nýjungar. Til dæmis fór borgarstjóri með her manns með sér til San Fransisco til að skoða stöðumæla fyrir nokkrum árum. Og ég hélt að stöðumælar væru bara til í Færeyjum, jafnvel í Danmörku eða einhvers staðar nær en þetta. En þetta varð nú ofan á. Auðvitað hræðir þetta. Ég vona að menn fari ekki að sækja sér þekkingu á strætisvagnakerfum með því að fara til Sjanghæj eða eitthvað slíkt. En það gæti alveg dottið í menn að gera það. Nærtækur kostur að horfa til varðandi strætisvagnaleiðir er Álaborg í Danmörku. Ég þekki þokkalega til þar, hef átt þar fólk í allmörg ár og heimsæki þá ágætu borg mörgum sinnum á ári. Ég sagði áðan að ég yrði að halda áfram með þetta í næstu ræðu og ég verð að standa við það. En í Álaborg hafa menn skoðað þann möguleika að fara út í einhvers konar léttlestakerfi. Þeir skoðuðu það nokkuð lengi en steinhættu við það. Álaborg er svipuð að stærð og Reykjavík og með svipaðan íbúafjölda. Hún er ekkert minni um sig að flatarmáli en Reykjavík, held ég. Ég held því að við ættum að líta þangað. En ég verð að fara yfir það í næstu ræðu. Ég er búin með tímann minn og bið því forseta vinsamlegast að bæta mér á mælendaskrá aftur.