150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[21:57]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Mig langar í þessari ræðu að ræða aðeins um umhverfismál og umhverfisvernd. Það hefur stundum stuðað mig og gert mig ergilegan, þegar við ræðum um umhverfisvernd í kringum vegalagningar og skipulag á vegum, að ekki er samhliða talað um samfélagsvernd. Það hefur bara ekki verið þannig. Þegar ég ræði þessi mál er hugur minn mest úti á landi og þá kemur upp í huga vegur sem er ekki búið að leggja en er löngu tilbúinn og átti að vera löngu búið að leggja og það er vegurinn um hinn fræga Teigsskóg eða í Gufudalssveit fyrir vestan. Það má segja að þeirri framkvæmd hafi verið haldið í gíslingu af örfáum aðilum sem hafa með sínum aðferðum stoppað allar framkvæmdir. Það er mjög sorglegt að það skuli hafa viðgengist. En þannig er nú bara lífið.

Fyrir aldamótin síðustu, um og upp úr 2000, var á sunnanverðum Vestfjörðum, á Patreksfirði, á Tálknafirði og Bíldudal, mjög lítið um að vera, lítil atvinna. Sumir sögðu t.d. á Bíldudal að það ætti bara eftir að slökkva ljósin. Á Tálknafirði var og er útgerð ekki mikil, á Patreksfirði var svolítil útgerð en annað var ekki mikið og fólki var farið að fækka mikið í þessum byggðarlögum. Á milli 2003 og 2006 var búið að hanna þennan veg um Gufudalssveit og hann var tilbúinn til útboðs en ekkert varð af því vegna þessara kærumála sem urðu út af umhverfisvernd. Upp úr 2010 hefst laxeldi á þessum stöðum sem ég taldi upp og það hefur gjörbreytt mannlífinu þar. Í dag hefur fólki fjölgað mikið og þessi framleiðsla veltir milljörðum á ári. En vegurinn er ekki enn þá kominn um Teigsskóg og það er alveg ótrúlegt að ekki skuli hafa orðið slys á þessari leið. Þetta er alveg skelfileg leið, þó að það sé gott veður og hvað þá á veturna. Það sem hefur bjargað þungaflutningum og flutningum sem fara þarna um er flóabáturinn Baldur sem gengur þarna yfir. Bílarnir hafa getað farið með honum. Eins hefur verið farið á milli lægða, eins og sagt er, þegar hægt er að ryðja heiðina.

Það sem mér finnst sorglegt í þessu sambandi er að þarna er ekkert litið til þarfar samfélagsins fyrir þennan veg vegna þess að einhverjir örfáir aðilar hugsa fyrst og fremst um eitthvað allt annað og stöðva þessar framkvæmdir. Það mætti minnast á þetta víða annars staðar á landinu, en þetta kom mér í hug núna. Þó að náttúran eigi að njóta vafans í öllu sem við gerum í sambandi við allt sem að henni lýtur þá gengur þetta ekki áfram þegar að þessum þætti kemur. Hugsunin um umhverfisvernd í sambandi við samgöngur á sínum tíma, þegar var byrjað að fara í þessi mál svona, var allt öðruvísi. Þá var verið að hugsa um samfélögin um leið. En í dag er samfélagsverndin á undanhaldi. (Forseti hringir.) Ég vil hvetja okkur til þess að hugsa um bæði þessi atriði samhliða, umhverfisvernd og samfélagsvernd, þegar við erum að hanna vegi og ákveða vegalagningar.