150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[22:40]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Karl Gauti Hjaltason) (M):

Herra forseti. Ég er óþreyjufullur að komast aftur að í ræðu, mér finnst ótrúlega langur tími á milli ræðna. Ég ætla að nota næstu fimm mínútur til að fara yfir eitt mál. Nú er ég búinn að safna þessu saman og ætla að fara yfir hugmyndir um veggjöld í stuttu máli. Ég held að fáir geri sér grein fyrir hvar veggjaldahugmyndir stjórnvalda eru staddar í dag. Það er búið að ræða veggjöld í nokkuð langan tíma og fólk hefur kannski ekki tekið eftir því að við höfum nú til afgreiðslu ekki eitt og ekki tvö heldur þrjú stjórnarþingmál sem innihalda mismunandi fyrirætlanir um veggjöld. Þetta hefur kannski farið fram hjá mörgu fólki og þess vegna ætla ég að fara í örstuttu máli yfir þessi þrjú þingmál og hvernig þau skarast. Þetta er eitt af því sem varð til þess að ég var á minnihlutaáliti varðandi samgönguáætlun, ég fylgdi ekki meiri hluta samgöngunefndar og skilaði minnihlutaáliti. Ein af ástæðunum er að mér finnst hugmyndir um veggjöld ekki nógu skýrar og ekki nógu vel útfærðar, og ég ætla að rökstyðja það hér, í þessum þremur málum og hvernig þau eru lögð fram fyrir þingið. Þetta eru allt ólík mál, bæði að eðli og formi. Svo virðist sem þau séu alls ekki í neinum sérstökum tengslum hvert við annað sem er auðvitað verulega mikill galli á þeim. Ég tel rétt, herra forseti, að vekja sérstaka athygli á því að það eru þrjú mál hér inni sem fjalla um veggjöld og gera ráð fyrir þeim en eru öll ólík, öll koma að úrlausnarefninu á mismunandi hátt.

Herra forseti. Í fyrsta lagi er hugmynd um gjaldtöku í jarðgöngum viðruð í áliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar sem hér er til umræðu einmitt núna. Á bls. 11 í því áliti segir, með leyfi forseta:

„Nefndin fagnar þessari framtíðarsýn um greiningu jarðgangakosta. Nefndin styður einnig þá framtíðarsýn að bein framlög úr samgönguáætlun og jarðgangaáætlun standi undir hluta framkvæmdakostnaðar jarðganga, og að gjaldtaka af umferð fjármagni hluta auk þess sem hún greiði fyrir rekstur og viðhald ganganna. Ekki er tímabært að taka afstöðu til frekari útfærslu á þessari fjármögnunaraðferð enda er niðurstaðan háð heildstæðri greiningu á henni.“

Þarna er sem sagt gert ráð fyrir því að verði gerð jarðgöng verði gjaldtaka í þeim.

Í öðru lagi er hugmynd um gjaldtöku á höfuðborgarsvæðinu í svokölluðum höfuðborgarsáttmála sem þar er kölluð flýti- og umferðargjöld og við sjáum hana birtast í frumvarpi til laga um heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða. Ég les úr 3. gr. frumvarpsins um hlutverk og verkefni þessa ohf.-félags, þau eru talin upp í liðum a, b, c og d og í e-lið stendur, með leyfi forseta:

„Að innheimta flýti- og umferðargjöld á höfuðborgarsvæðinu, verði ákveðið með lögum að leggja slík gjöld á, og byggja upp innviði slíkrar innheimtu.“

Þarna er einkaaðilum að hluta til sem sjá hugsanlega um þessa framkvæmd veitt heimild, og þessu félagi, til að rukka þessi gjöld á höfuðborgarsvæðinu.

Í þriðja lagi eru reifaðar hugmyndir um gjaldtöku í frumvarpi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir. Þar eru nefnd sérstaklega sex tiltekin verkefni sem gætu verið unnin af einkaaðilum og þar er reifuð hugmynd um að þau gætu að hluta eða að öllu leyti verið fjármögnuð með gjaldtöku um vegi, brýr eða jarðgöng sem fjallað er um í frumvarpinu. Í 3. gr. þess frumvarps segir, með leyfi forseta:

„Heimilt er að fjármagna samvinnuverkefni að hluta eða öllu leyti með gjaldtöku af umferð um mannvirki sem samvinnuverkefnið nær til. Veggjöld geta í heild eða að hluta staðið straum af byggingarkostnaði, viðhaldi, rekstri, þróun …“

Þarna er Vegagerðinni heimilað að fela einkaaðilum með samningi að taka þetta gjald.

Herra forseti. Ég er að vekja athygli á því að við erum með þrjú mál, þrjú eðlisólík mál, eina þingsályktunartillögu og tvö frumvörp, sem öll gera ráð fyrir gjaldtöku á mismunandi hátt. Ég tel það ekki vera traustvekjandi að setja þetta fram með þessum hætti í stað þess að hugmyndinni yrði fundinn stuðningur (Forseti hringir.) í einu allsherjarfrumvarpi sem tæki á þeim spurningum sem þarf að svara í þessu sambandi.