150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[23:02]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Þegar frá var horfið var ég byrjaður að ræða eðli borgarlínu en það hefur verið nokkuð á reiki, a.m.k. er ekki annað að heyra á ráðherrum. Borgin virðist þó vera með þetta allt á hreinu fyrir sitt leyti og hefur gefið út um efnið nokkrar skýrslur sem veita innsýn í hugarheim borgarstjórnarmeirihlutans hvað varðar þessa borgarlínu.

Í lok síðustu ræðu útskýrði ég hvernig áform um að borgarlína hafi forgang á ljósum muni rugla allt ljósastillingarkerfi höfuðborgarsvæðisins. Lengi hefur verið rætt um mikilvægi þess að bæta ljósastýringarkerfið, því að það eitt og sér myndi liðka mjög fyrir umferðinni. En þegar borgarlínan, sama hvenær hún nálgast ljós, fær forgang og kemur rautt á alla aðra umferð segir það sig sjálft að allar hugmyndir um ljósastýringu fara forgörðum. En þetta telst e.t.v. til kosta við borgarlínuna, að mati þeirra sem tala mest fyrir henni, enda eru sumir þeirra, og margir þeirra, óhræddir við að útskýra að einn af kostunum við hana sé að hún þrengi að annarri umferð og ýti undir það að fólk játi sig sigrað og noti almenningssamgöngur fremur en að nota fjölskyldubílinn, enda mun borgarlínan þrengja að umferðinni.

Á mörgum þeirra gatna, þar sem álagið er nú þegar hvað mest, verða teknar akreinar undir borgarlínuna og af annarri umferð. Þetta helst allt í hendur. Það eru teknar akreinar frá bílaumferðinni og ljósastýringin fer öll úr skorðum. Menn geta rétt ímyndað sér, í ljósi þess hvernig umferðarástandið er í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu nú þegar, hvernig þetta verður, þegar búið er að hrinda þessu í framkvæmd verði einhvern tímann af því. Allt verður þetta svo borgað með gjöldum þeirra sem eru ekki að nýta sér þjónustuna. Að sjálfsögðu munu notendur borgarlínu greiða eitthvað en hér er gert ráð fyrir því að fjárfesting í þessu verkefni, og eflaust svo reksturinn, muni koma í gegnum skattlagningu, gjaldtöku af annarri umferð og raunar líka sölu á ríkiseignum o.fl. Það á sem sagt að þrengja enn frekar að umferðinni, auka umferðarhnútana í borginni og láta þá sem sitja fastir borga enn meira fyrir að fá að sitja fastir, enda hétu þessi áformuðu gjöld tafagjöld þegar þau voru kynnt til sögunnar, sem var auðvitað réttnefni, en hafa nú verið endurskírð flýtigjöld. Það er erfitt að átta sig á því hvernig gjaldtaka sem er til þess fallin að þrengja að umferðinni geti kallast flýtigjald.

Jú, áfram um eðli borgarlínunnar: Það liggur fyrir að borgarlínan mun ekki leysa strætó af hólmi því að áfram verða reknir hverfisvagnar. Með öðrum orðum er verið að setja upp tvöfalt kerfi í almenningssamgöngum á sama tíma og það kerfi sem fyrir var hefur átt í endalausum vandræðum og ótal tilraunir verið gerðar til að reyna að laga það. En nú á að reka tvöfalt kerfi og enn minni ég á að okkur vantar allar upplýsingar um hvað rekstur þessa tvöfalda kerfis muni kosta. Minni strætisvagnar munu sem sagt þræða hverfin, safna fólki saman og flytja það á stoppistöðvar borgarlínunnar. Sá sem ætlar að nýta sér almenningssamgöngur, búi hann í einu þessara hverfa, þarf fyrst að fara út á strætóstoppistöð, bíða þar eftir hverfisstrætó og þegar hann loks kemur og skilar viðkomandi á borgarlínustoppistöð er smábið þar þangað til farið er á áfangastað eða jafnvel á stað þar sem hægt er að bíða eftir næsta hverfisstrætó til þess að komast loks leiðar sinnar. Þetta tvöfalda kerfi er uppskrift að vandræðum í rekstri, hvort sem það eru efnahagslegir erfiðleikar eða skipulagslegir.