150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[23:13]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég ætla að halda aðeins áfram að fjalla um samgöngumál í Bláskógabyggð. Ég var að ræða m.a. Kjalveginn, að það yrði ráðist í þá mikilvægu framkvæmd en því miður er búið að tefja það verkefni vegna krafna um mat á umhverfisáhrifum sem stangast alveg á við sambærileg verkefni sem ráðist hefur verið í, eins og hinn ágæta Þingvallaveg sem var tekinn í notkun sl. haust og er mikil samgöngubót og vel að verki staðið hvað þá framkvæmd varðar.

Á öðru tímabili samgönguáætlunar er gert ráð fyrir fjármagni í færslu Biskupstungnabrautar á svæðinu við Geysi og Tungufljót. Það er mjög mikilvægt að sú áætlun haldist. Svæðið ber mjög illa umferðarþungann sem þar er og hefur verið mjög mikill þegar ferðamennirnir voru hér fyrir veirufaraldurinn. Vonandi verður breyting á því og ferðamönnum fer að fjölga á ný. Þessi framkvæmd tengist mjög fyrirhuguðum framkvæmdum ríkisins við Geysissvæðið eins og við höfum fengið fréttir af. Nú er búið að friðlýsa það og ég óska landsmönnum til hamingju með það. Ég held að það hafi verið löngu tímabært, þetta er ein af náttúruperlum okkar. Þessar framkvæmdir tengjast aðkomuleiðum að svæðinu. Það er brýnt að Vegagerðin hafi fjármagn til að fara af stað í þá undirbúningsvinnu sem þarf og mat á umhverfisáhrifum.

Ég vil líka koma að malarvegum og viðhaldi þeirra. Það á við víða á landinu og í öllum landshlutum. Það er nauðsynlegt að tryggja Vegagerðinni fjármagn til að viðhalda malarvegum. Á mörgum þeirra er mjög þung umferð allt árið um kring og að sjálfsögðu eru malarvegir ekki eins öruggir vegir og þeir sem eru með bundnu slitlagi þannig að þetta er öryggismál. Í Bláskógabyggð þarf að tryggja að lagt verði bundið slitlag á Einholtsveg um Eystri-Tungu, sem er mikilvæg samgönguleið innan sveitarfélagsins. Auk þess, af því að ég er fjalla um Suðurlandið, hefur sveitarstjórn Rangárþings lagt ríka áherslu á að ráðist verði í framkvæmdir við malartengivegi og nauðsynlegt er að auka við fjármagn til þeirra framkvæmda.

Síðan eru það einbreiðar brýr. Í samgönguáætlun eru tilgreind markmið um fækkun einbreiðra brúa á hringveginum eins og við þekkjum og það er afar brýnt verkefni sem eykur mjög umferðaröryggi og nauðsynlegt að taka á því. Það er í gangi fjárfestingarátak ríkisstjórnarinnar vegna veirufaraldursins og þar var ákveðið að fara aðeins í þá vegferð og það er gott svo langt sem það nær. En sveitarstjórn Bláskógabyggðar bendir á að það sé rík þörf fyrir að fækka einbreiðum brúm á umferðarmiklum stofnvegum, t.d. er umferðarmesta einbreiða brú landsins á Biskupstungnabraut yfir Tungufljót á milli fjölsóttra ferðamannastaða, Gullfossi og Geysi. Það sjá það allir að á þessum stöðum sem ferðamenn hafa sótt mjög verður að vinna bragarbót, einfaldlega vegna umferðaröryggis. Ég ræddi líka í ræðu fyrr í dag um mikilvægi þess að bæta vegmerkingar, skilti og annað slíkt, þegar komið er að einbreiðum brúm. Ferðamenn þekkja t.d. ekki þá venju sem við höfum á Íslandi, að þegar komið er að svona brú þá víkur yfirleitt sá sem kemur að fyrr. Þeir þekkja ekki þessa hefð (Forseti hringir.) og þess vegna er mjög mikilvægt að upplýsa ferðamenn um nákvæmlega hvernig á að haga sér þegar komið er að brúm af því tagi.