150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[23:23]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Karl Gauti Hjaltason) (M):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að velta fyrir mér vegakerfinu, eðlilega, við erum að ræða hér um samgönguáætlun. Vegakerfið hér á landi hefur mátt þola áralanga vanrækslu, ef svo má segja. Hugsanlega hefði gengið skár ef umferð hefði ekki aukist langt fram úr því sem menn sáu fyrir sér fyrir kannski 10–15 árum. Með fjölgun ferðamanna jókst umferð á vegum landsins gífurlega og það hefur valdið sliti á þeim. Samfara því er aukinn umferðarþungi flutningabifreiða sem flytja vörur þvers og kruss um landið til að sinna íbúum og gestum þeirra. Ég fann fyrir forvitnissakir á vef Vegagerðarinnar útreikninga á áhrifum flutningabifreiða á vegi, þ.e. á sliti vegna umferðar flutningabifreiða. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Með vaxandi umferð hefur slit á vegum aukist til muna en þar vega þungt auknir vöruflutningar. Þungar bifreiðar slíta þjóðvegunum margfalt meira en léttar fólksbifreiðar því þungaumferðin brýtur niður burðarlög veganna smátt og smátt og veldur því að með tímanum minnkar burðarþol þeirra. Í grófum dráttum er talið að áhrif þyngdar hafi fjórða veldis áhrif á niðurbrot veganna. Þetta þýðir að öxull, sem er 10 tonn að þyngd, hefur 10 þúsund sinnum meiri áhrif á niðurbrot vegar en öxull sem er 1 tonn.“

Ég fann einnig gamalt svar samgönguráðherra fyrir 15 árum, á 135. löggjafarþingi, við fyrirspurn Ármanns Kr. Ólafssonar, þáverandi þingmanns, sem er nú bæjarstjóri í Kópavogi, þar sem hann spyr einmitt um slit flutningabifreiða á vegum. Fyrirspurnin hljóðaði svo:

„Hversu hlutfallslega mikið meira slítur flutningabíll vegum landsins en meðalfólksbíll, miðað við að flutningabíllinn hafi 80% hleðslu, bæði með og án tengivagns, og fólksbíllinn sé 1.800 kg?“

Ég held að það sé nú kannski í þyngra lagi, það er kannski einhvers konar slyddujeppi. Svar þáverandi samgönguráðherra var, með leyfi forseta, svohljóðandi:

„Vegir eru í grófum dráttum gerðir úr burðarlagi annars vegar og slitlagi hins vegar. Slitlagið getur síðan verið annaðhvort bundið eða óbundið, þ.e. malarslitlag. Ætla má að stærðargráða niðurbrots vega (þ.e. burðarþolslega) sé hlutfallslega eftirfarandi:

Ein ferð flutningabíls án tengivagns með 80% hleðslu gæti valdið svipuðum niðurbrotsáhrifum og 9.000 ferðir 1.800 kg fólksbifreiðar.

Ein ferð flutningabíls með tengivagn og 80% hleðslu gæti valdið svipuðum niðurbrotsáhrifum og 12.000 ferðir 1.800 kg fólksbifreiðar.

Aukið niðurbrot þungra bifreiða á vegum, umfram það niðurbrot sem léttari bifreiðar valda, byggist á því að við ákveðin þyngdarmörk margfaldast áhrif á burðarlag vegarins. Niðurbrotsáhrif þungra bifreiða á burðarþol vega geta verið breytileg, m.a. eftir styrkleika vegar og búnaði ökutækja. Þannig verður hlutfallslegt niðurbrot þungrar bifreiðar meira á vegi með veika uppbyggingu heldur en á vegum með sterka uppbyggingu. Fjöðrunarbúnaður, hjólbarðar og gerð ökutækis getur einnig haft mismunandi áhrif á niðurbrot. Það svar sem hér er gefið byggist á einföldu módeli af þeim aðstæðum sem taldar eru dæmigerðar hér á landi. Ef horft er til slits nagladekkja á bundnum slitlögum má ætla að það geti verið um fjórum sinnum meira, miðað við hvert dekk flutningabílsins, en getur verið háð ýmsum forsendum, svo sem þyngd nagla, gerð slitlags o.fl.“

Frú forseti. Þetta vekur upp fjölda spurninga, t.d. hvort nógsamlega sé unnið að því að takmarka umferð þungra ökutækja um vegi landsins, hvort unnt sé að minnka þetta slit með því að búa þessar bifreiðar á einhvern annan hátt til að dreifa þunganum, hafa t.d. fleiri öxla, fleiri hjólbarða, stærri dekkjafleti og annað slíkt. Það er greinilega til mikils að vinna, frú forseti. Einnig vil ég nefna þingsályktunartillögu sem hv. þm. Ásmundur Friðriksson lagði hér fram í vetur (Forseti hringir.) um aukna strandflutninga með skipum sem gæti þá létt álagi (Forseti hringir.) á vegum landsins.