150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[23:34]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Ég var byrjaður að fara yfir eðli borgarlínu út frá nýrri skýrslu frá verkefnastofu borgarlínu. Þar er kort sem sýnir fyrsta áfanga þessara áforma en á kortinu sést mjög skýrt að flest stærstu hverfi Reykjavíkur, úthverfin, tengjast ekki borgarlínu í fyrsta áfanga. Svoleiðis að þau ár sem það tekur að leggja fyrsta áfanga þessarar línu verða stóru hverfin, eins og Grafarvogur, Árbær, Breiðholtið og miðsvæðið í Reykjavík einnig, ótengt þessari línu en á sama tíma þrengir hún að umferðinni úr þessum hverfum. Ekki nóg með að hverfin séu ekki tengd við línuna heldur líða þau fyrir hana þegar menn fara á fjölskyldubílnum á milli bæjarhluta vegna þess að hún byrjar strax að þrengja að umferð um samgönguæðar borgarinnar. Gert er ráð fyrir að önnur endastöðin sé Ártúnshöfði og hin Hamraborg í Kópavogi og þar fer línan í gegnum íbúðabyggð, eins og hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson lýsti áðan. Svo er gert ráð fyrir að línan fari þarna yfir ímyndaða brú og taki svo land rétt suður af Reykjavíkurflugvelli, það er líklega þar sem menn ætluðu sér að fara í gegnum flugskýli, og svo áfram í miðbæinn og loks tekinn snúningur og haldið upp í Ártúnshöfða.

Við getum rétt ímyndað okkur hver viðbrögðin verða ef þessi fyrsti áfangi verður kláraður og það kemur á daginn að þetta hafi allt reynst miklu dýrara og erfiðara en menn töldu og farið að þrengja að umferðinni, m.a. úr Grafarvoginum og Breiðholtinu. Jú, þá verður sagt: Það er búið að setja svo mikinn pening í þetta að það verður að halda áfram til þess að þetta fari að virka betur sem ein heild. Við neyðumst einfaldlega til að setja meiri pening í þetta. Menn sjá að íbúarnir komast ekki úr Grafarvoginum, komast ekki úr Grafarholtinu, komast ekki úr Norðlingaholti, úr Breiðholti o.s.frv. og þess vegna þarf að tengja þá við borgarlínuna líka. Svona mun endaleysan halda áfram, alltaf með þeim rökum að búið sé að setja svo mikið í þetta að óhjákvæmilegt sé að setja meira fjármagn í verkefnið. Og hvað mun ríkið segja þá? Ja, í ljósi reynslunnar, ef það verður engin breyting á, gerir ríkisvaldið væntanlega bara það sem borgarstjórnarmeirihlutinn í Reykjavík ætlast til.

Í þessari skýrslu er birt skýringarmynd af því hvernig þetta á að líta út. Þar sést glögglega hversu mikið pláss fer undir þessa borgarlínu. Ef byrjað er á annarri gangstéttinni, lítum svo á að það séu gangstéttir sitt hvorum megin við götu, þá er fyrst gangstétt, svo tré, svo hjólreiðabraut, svo akvegur, ein akrein fyrir bíla, svo eyja með trjám, svo kemur borgarlínan, tvær akreinar, önnur eyja með trjám, svo ein akrein fyrir bíla í hina áttina, næst annar hjólastígur hinum megin, svo fleiri tré og loks gangstéttin hinum megin götunnar. Þetta getur samanlagt farið upp í einhverja tugi metra. Það verður ekkert endilega sérstaklega aðlaðandi svæði því að þarna verða farþegar borgarlínunnar settir út í miðjunni, á nokkurs konar einskismannslandi, og þurfa síðan að koma sér í gegnum umferðina, bíla og hjól, til þess að ná landi á gangstéttinni hinum megin. Þetta minnir svolítið á tölvuleik sem var vinsæll í árdaga tölvuleikja og hét Frogger. En þetta er planið. Þá liggur það fyrir að … (Forseti hringir.)

Frú forseti. Það getur varla verið að tíminn sé búinn eina ferðina enn. Ég verð að biðja frú forseta um að setja mig aftur á mælendaskrá.