150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[23:50]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Frú forseti. Ég vil fjalla aðeins áfram um vegamál á Suðurlandi. Samtök sunnlenskra sveitarfélaga gerðu á síðasta ári skýrslu um þau verkefni sem blasa við Sunnlendingum í samgöngumálum. Þetta er athyglisverð skýrsla og margt fróðlegt sem þar kemur fram og hún er ágætlega unnin. Í skýrslunni koma fram tíu áherslupunktar sem eru forgangsverkefni í samgöngumálum á Suðurlandi á næstu árum. Samtökin segja að þessir áherslupunktar séu allir jafn mikilvægir. Ég ætla að fara aðeins yfir þá vegna þess að þeir gefa glögga mynd af því sem þarf að ráðast í á næstu árum á Suðurlandi í brýnum vegabótum.

Í forgangi er að tryggja öryggi vegfarenda á Suðurlandi. Við sem íbúar og ferðamenn verðum að upplifa að við séum örugg á þjóðvegunum. Svo er því miður ekki á Suðurlandinu og víðar í öðrum landshlutum. Það verður bara að segjast eins og er, enda hefur umferðarþunginn verið mjög mikill, sérstaklega á Suðurlandi, nánast allan ársins hring, áður en faraldurinn skall á, og fjöldi ferðamanna mikill — og þeim muni fjölga aftur og þess vegna er mjög brýnt að forgangsraða verkefnunum.

Vegir á Suðurlandi eru víða þröngir og það veldur slysahættu og vegaxlir eru einnig lélegar á mörgum stöðum eða jafnvel ekki fyrir hendi. Þetta á sérstaklega við á þjóðvegi eitt frá Markarfljóti og austur í Skaftafellssýslur og sömuleiðis á mörgum stofnvegum í uppsveitum. Þessa vegi þarf að breikka og styrkja og bæta vegaxlir og auk þess þarf náttúrlega að gera ráð fyrir hjólreiðafólki og gangandi umferð í þeim framkvæmdum sem ráðist er í í dag. Það er ekki bara á höfuðborgarsvæðinu sem gera þarf ráð fyrir hjólreiðafólki og gangandi vegfarendum. Síðan er mikilvægt að setja rifflur á miðja vegina sem er öryggisatriði, svo að menn séu ekki að fara yfir á rangan vegarhelming, þar sem pláss er fyrir slíkt og sömuleiðis að setja vegrið þar sem bratt er niður af vegi og veghelgunarsvæðið lítið. Þetta á sérstaklega við um veginn í Eldhrauni og á Síðu og í Öræfum undir Eyjafjöllum og í Mýrdalnum.

Síðan komum við að einbreiðum brúm í Suðurkjördæmi og þær eru margar. Á þjóðvegi eitt eru þær 21 og ég hef áður rætt hér mikilvægi þess að útrýma þeim. Þetta er veruleg slysagildra eins og við þekkjum og samræmist engan veginn umferðarþunganum og þeim kröfum sem við gerum til öryggis á vegum landsins. Auk þess er mikilvægt, og Samtök sunnlenskra sveitarfélaga leggja áherslu á það, að setja útskot og afreinar og aðreinar á hættulega staði þar sem umferðarþungi og hröð umferð mæta heimreiðum og tengivegum. Þetta er einmitt mjög mikilvægt atriði vegna þess að það eru margar heimreiðar á Suðurlandi, í uppsveitunum og í Holtum, í Landsveit og á fleiri stöðum, og brýnt að fyllsta öryggis sé gætt vegna þess að hætta skapast þegar ekið er inn á þjóðveginn og mikilvægt að úr því sé bætt. Auk þess þarf að efla löggæsluna. Við þekkjum það öll og við höfum rætt það hér oft, og það er óumdeilanlegt, að sýnileg löggæsla og öflugt umferðareftirlit heldur niðri umferðarhraða og spornar við ofsaakstri sem oftar en ekki er sök í alvarlegum umferðarslysum. Það þarf einkum að efla löggæslu miðsvæðis á Suðurlandi, í Vík, á Klaustri og í Öræfum, (Forseti hringir.) svo að eitthvað sé nefnt, og einnig þarf að styrkja almannavarnir og störf annarra (Forseti hringir.) viðbragðsaðila. Þetta kemur fram í skýrslu Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga um vegamál á Suðurlandi. (Forseti hringir.) Ég mun fara nánar út í þetta á eftir, frú forseti, ef þú gætir sett mig aftur á mælendaskrá.