150. löggjafarþing — 120. fundur,  19. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[00:06]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Karl Gauti Hjaltason) (M):

Frú forseti. Ég ætlaði að fjalla aðeins frekar um veggjöldin og byrja á því að vitna í grein Þórarins Hjaltasonar sem birtist nýlega í Kjarnanum, þar sem hann fer yfir þá áróðursherferð sem honum sýnist vera í gangi með borgarlínuna. Ég ætla aðeins að lesa upp úr grein hans sem er ansi löng. Hann segir hér, með leyfi forseta:

„Til þess að gera nánari grein fyrir einhliða áróðri í sambandi við borgarlínuna er ágætt að styðjast við vefsíðuna borgarlinan.is, sem vistuð er hjá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Þar segir: „Uppbygging borgarlínu er í samræmi við það sem er að gerast í löndunum í kringum okkur í álíka stórum og minni borgarsamfélögum.“ Þetta eru villandi upplýsingar þar eð þetta á t.d. ekki við um Stóra-Bretland.

„Nær allar norrænar borgir af svipaðri stærð og höfuðborgarsvæðið eru að vinna að sambærilegum lausnum eða eru þegar komnar með þær.“ Þessi fullyrðing er nær sanni. Metnaðarfyllsta hraðvagnakerfið er væntanlegt á Stavangersvæðinu. Byrjað er að byggja það og á að ljúka framkvæmdum 2024. Þá verður samanlögð lengd Bussveien, þ.e. sérrýma fyrir hraðvagna, 50 km og verður það Evrópumet.“

Í samanburði við þetta verður borgarlína lengri en það. Þannig að við erum að gera allt miklu dýrara og stærra og meira en annars staðar. Áfram segir Þórarinn:

„Upphaflega var áætlaður kostnaður við Bussveien í Stavanger sambærilegur við áætlaðan stofnkostnað við borgarlínuna, en nýjasta áætlunin hljóðar upp á 170 milljarða ISK.“ — Þarna er nú aldeilis farið af stað í vegferðina.

Síðan ræðir hann töluvert um vegtolla á höfuðborgarsvæðinu þar sem hann útskýrir hvernig smám saman kom upp sú hugmynd að taka upp vegtolla, svokölluð tafagjöld. Og hann segir hér, með leyfi forseta:

„Þegar verkefnastjóri undirbúnings að borgarlínunni upplýsti það í Morgunblaðinu í desember 2017 að Bussveien í Stavanger væri ein helsta fyrirmyndin að borgarlínunni, þá fór mig fljótlega að gruna að stefnt væri að því að innleiða tafagjöld á höfuðborgarsvæðinu þótt ekki væri rætt um þennan möguleika opinberlega svo ég viti til fyrr en í nóvember sl.“ — Þannig að menn læra nú sitthvað.

Þetta leiðir til þess að maður veltir fyrir sér hvenær veggjöld hafi fyrst komið upp hér. Það er nú til gömul saga um það og auðvitað eru Snæfellingar svolítið langt á undan sinni samtíð vegna þess að þeir voru fyrstir til að taka upp veggjöld. Ég rakst á sögu úr bók sem heitir Þjóðsögur og munnmæli og gefin var út árið 1899. Þar segir um veggjöld, en Grani bóndi á Stað reyndi það eitt sinn með skelfilegum afleiðingum, með leyfi forseta:

„Á Stað á Ölduhrygg (Staðastað) bjó í gamla daga bóndi sá, er Grani hét; var hann bæði ágjarn og auðugur. Alfaravegurinn lá um landareign hans eptir endilaungum Ölduhrygg, sem nú er kallað Staðarholt, og verður en í dag fara um þennan veg, er ferðast er vestur undir Jökul eða þaðan inn á Mýrar eða í Dali, enda er vegur sá mjög fjölfarinn, bæði til kauptúnanna Ólafsvíkur og Búða, og til skreiðarkaupa vestur í „pláss“, sem kallað er, en það er Hjallasandur, Keflavík, Ólafsvík og Brimilsvellir. Grani bóndi þessi þóttist nú geta náð miklu fé, ef hann tollaði veginn; bygði hann því afarmikinn torfgarð neðan frá sjó og upp í Langavatn (Staðarvatn). Hlið hafði hann á garðinum, þar sem vegurinn er, og veitti engum fararleyfi, nema þeim, er greiddu Granatoll. Óljóst er með öllu, hve hár hann hefur verið, en illa undu menn tollgreiðslu þessari, enda launuðu þeir Grana bónda hana, því einhvern morgun fannst hann dauður, hangandi við annan dyrastafinn í garðshliðinu. Hefir sá vegur aldrei verið tollaður síðan.

Það er auðséð á garðrúst þeirri, sem eptir er, að hann hefir verið ákaflega hár og þykkur, og leingd hans hér um bil 300–400 faðmar.“

Svo að þetta er alls ekki ný hugmynd og Snæfellingar framar öðrum í að taka upp nýjar skattlagningar, eins og þessi saga segir, sem er tekin úr bókinni Þjóðsögur og munnmæli, tekin saman af Jóni Þorkelssyni 1899.