150. löggjafarþing — 120. fundur,  19. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[00:16]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Nú er orðið tímabært að ræða aðeins um kostnaðaráætlun við lagningu borgarlínu og líta til dæma um það hvað svona framkvæmdir hafa kostað annars staðar. Það er reyndar mjög á reiki hvað menn telja að þessi borgarlína muni kosta. Talað var um 70 milljarða án þess að það lægju fyrir mikil rök um það hvernig menn reiknuðu það, en svo var þetta nú hækkað í 80 milljarða og ýmsar tölur aðrar hafa heyrst. Maður hlýtur að velta því fyrir sér hvort borgin, sem eyddi hálfum milljarði króna í að gera upp einn bragga, muni standast áætlanir um kostnað við lagningu borgarlínu. Þetta verkefni er dæmigert fyrir verkefni sem koma sveitarfélögum í vandræði, innviðaverkefni sem reynast margfalt dýrari en lagt var upp með, ekki aðeins framkvæmdin heldur reksturinn líka og verður að eilífðarvandamáli, dæmigert slíkt verkefni.

Við getum litið til reynslu annarra landa. Þegar farið var að ræða borgarlínuna vísuðu menn í fyrirmyndir hér og þar og eitt af því sem var nefnt voru áform um borgarlínu í Edinborg. Þar stóð til að klára lagningu borgarlínu og taka hana í notkun árið 2009. En þessi borgarlína var fyrst og fremst hugsuð til að flytja fólk frá flugvellinum, Edinborgarflugvelli, inn í borg og til baka með stoppum hér og þar á leiðinni. Þetta er ekki sérlega löng lína eða um 14 km sem er álíka langt og einungis fyrsti áfanginn í íslensku borgarlínunni. Gert var ráð fyrir því að þetta verkefni myndi kosta sem nemur um tæpum 64 milljörðum kr., en hvað kom svo á daginn? Jú, þetta dróst auðvitað úr hófi og línan var ekki opnuð fyrr en árið 2014, átti að opna 2009 eins og ég gat um áðan, og hafði þá verið stytt frá því sem upphaflega var áformað vegna þess að kostnaðurinn hafði farið algjörlega úr böndunum. Ekki aðeins tók þetta miklu lengri tíma en menn gerðu ráð fyrir heldur fór kostnaðinn algerlega úr böndunum. Þrátt fyrir styttinguna var hann kominn í 132 milljarða kr., meira en tvöfalt það sem lagt var upp með, þrátt fyrir að menn hefðu ákveðið að einfalda þetta og stytta, 132 milljarða, álíka löng leið og fyrsti áfangi borgarlínunnar hér. En þá var þetta ekki búið því að það var svo ákveðið að bæta aðeins við og setja dálítinn stubb þarna til viðbótar og ekki sér fyrir endann á því. Það er náttúrlega allt farið úr böndunum líka svoleiðis að það var ákveðið að gera úttekt, rannsókn á því hvað hefði eiginlega gerst þarna, hvernig þetta hefði farið svona mikið úr böndunum. En viti menn úttektin á þessari framúrkeyrslu fór langt fram úr kostnaðaráætlun. Kostnaðurinn við úttektina fór algerlega úr böndunum og er komin í sem nemur 1,3 milljörðum kr., kostnaðurinn við að gera úttekt á framúrkeyrslunni við borgarlínuna í Edinborg sem, eins og ég gat um, er álíka löng og fyrsti áfangi borgarlínunnar hér.

Ég ítreka það sem ég nefndi í byrjun: Dettur einhverjum í hug að Reykjavíkurborg, eða það sem undir hana heyrir, muni gera þetta á hagkvæmari hátt en þeir í Edinborg? Ég held að menn treysti sér varla til að halda því fram svoleiðis að við getum óhikað gert ráð fyrir því að ef af þessu verður fari kostnaðurinn langt fram úr því sem áætlað er, eins og í Edinborg en ekki bara eins og í Edinborg því að dæmin um borgarlínuverkefni og sambærileg verkefni sem hafa farið úr böndunum eru fjölmörg.

Ég hef ekki tíma til að rekja fleiri dæmi en ég get glatt forseta með því að ég ætla að fá að skrá mig aftur á mælendaskrá til að geta klárað þessa yfirferð um kostnaðinn við borgarlínu, áður en ég sný mér að öðrum atriðum.