150. löggjafarþing — 120. fundur,  19. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[00:27]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Þegar maður flettir í gegnum nefndarálit meiri hlutans sem er töluvert að stærð — það er vel fram sett og ágætlega er farið yfir samgönguáætlunina eða það sem hér um ræðir — fer maður að velta því fyrir sér hversu gríðarlega stór þáttur samgöngur eru í lífi landsmanna eða í lífi okkar allra. Ég er ekki viss um að allir geri sér grein fyrir því hve miklir fjármunir liggja í samgöngum, í samgöngutækjunum, í innviðunum. Í nefndaráliti meiri hlutans, og líka í áliti 2. minni hluta, kemur fram að vegakerfið, þó að við tölum bara um það, er stærsta fjárfesting eða eign ríkisins. Þar er talið að fjárfestingarþörfin sé nálægt 400 milljörðum kr. Það vantar 400 milljarða kr. til þess að vegakerfið sé í þokkalegu lagi. Fjárfestingarþörfin er slík. Á sama tíma virðast helstu áherslur ríkisstjórnarinnar snúast um að búa til eitthvert risafyrirbæri á höfuðborgarsvæðinu sem er kallað borgarlína. Reyndar er eitthvað verið að reyna að búa til önnur nöfn á þetta, væntanlega til að dreifa athyglinni, en borgarlínu skulum við kalla þetta. Á sama tíma og vitað er að fjárveitingarþörfin er þessi ætlar stjórnarmeirihlutinn, með stuðningi nokkurra annarra flokka, að reyna að binda hendur ríkissjóðs á næstu árum um einhverja tugi milljarða. Það er jafnvel þannig að sumir þeirra sem styðja að þessi borgarlína og allt sem henni tengist nái fram að ganga skrifa upp á það með vinstri hendinni að innheimta eigi flýti- og umferðargjöld en eru svo á móti þeim með hinni hendinni, ef það má orða þannig. Þetta stangast á í því tilviki.

Þá veltir maður fyrir sér hvort komi ekki upp sú staða þegar sjóðir eru orðnir tómir, þegar ljóst er að verkið er komið langt fram úr áætlun — og frú forseti, verði farið í verkefnið eins og lagt er af stað með mun það fara langt fram úr áætlun. Ég vil endurtaka þetta þannig að þetta komist inn í gögn þingsins: Verkefnið mun fara langt fram úr áætlun. Reynslan segir okkur það bara og ekki eingöngu reynslan af vegaframkvæmdum eða svipuðum verkefnum annars staðar — ég kom inn á það í annarri ræðu fyrr í kvöld að verk sem farið var í í Stavanger í Noregi átti að kosta 50 milljarða, minnir mig að það hafi verið, en endaði í 200 milljörðum. Kílómetrinn sem er reiknaður á Íslandi upp á 1,2 milljarða, ef ég man rétt, reyndist 3–4 milljarðar í Noregi.

Af hverju lærir fólk ekki af þessu? Er það bara þannig að það er sest niður og segir: Heyrðu, nú þurfum við að búa til þessa borgarlínu. Við ætlum að fara í útreikninga og við ætlum að reikna allt mögulegt inn sem getur búið til einhvern ábata án þess endilega að pæla í því hvort verkefnið er raunhæft. Það hefur líka verið bent á það hér í kvöld að önnur gögn og rannsóknir sýni að framkvæmd sem þessi sé trúlega ekki þjóðhagslega hagkvæm. Nei, ríkið ætlar að binda sig um tugi milljarða, það gæti endað í meira en nokkrum tugum milljarða þegar upp er staðið ef ekki er girt fyrir að hægt verði að fara fram úr með verkefnið, ef hægt verður að ávísa framúrkeyrslunni á ríkissjóð. Það má ekki verða. Þetta er fyrst og fremst verkefni sem sveitarfélögin, sérstaklega Reykjavíkurborg, hafa ákveðið að fara í og þá er bara eðlilegt að þeir aðilar beri ábyrgð á því að verkefnið haldist á réttri braut. Verði það niðurstaðan að verkefnið fari fram úr áætlun, verði það niðurstaðan að áætlanir gangi ekki eftir mun það koma niður á annarri fjármögnun ríkisins í öðrum verkefnum. Hér hafa verið fluttar ræður um það hve mikil þörfin er fyrir að fjárfesta í vegakerfinu á höfuðborgarsvæðinu, að gera þeim sem þurfa og vilja nota einkabílinn kleift að ferðast á milli. Þar er líka umtalsverð fjárfestingarþörf.