150. löggjafarþing — 120. fundur,  19. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[00:32]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Frú forseti. Ég ætla að halda áfram umfjöllun minni um helstu verkefni í samgöngumálum hjá Sunnlendingum, á Suðurlandi, sem Samtök sunnlenskra sveitarfélaga hafa sent frá sér. Var það niðurstaða skýrslu samgöngunefndar samtakanna og kemur þar margt áhugavert fram. Skýrslan er vel unnin og mikilvægt gagn inn í þá samgönguáætlun sem við erum að ræða núna. Ég endaði á því að geta þess að það er nauðsynlegt að efla löggæsluna á þessu svæði, að hún sé sýnilegri og meira miðsvæðis á Suðurlandi, eins og í Vík, á Klaustri og í Öræfunum. Síðan er það þetta með stórar og fjárfrekar nýframkvæmdir eins og Ölfusárbrúna, veg um Hornafjörð og göng í gegnum Reynisfjall. Þetta eru framkvæmdir sem eru mjög arðbærar og mikilvægar, eins og lögð er áhersla á hér á vegum samtakanna. Þar verður hugsanlega ráðist í þessar framkvæmdir með hóflegum veggjöldum að hluta eða öllu leyti. Það á reyndar eftir að útfæra það allt saman og er áherslan sú að þá sé hægt að fara aðra leið ef menn kjósa svo, þannig að þeir þurfi ekki að greiða veggjald og aka þá leið sem því fylgir.

Stofnvegir og tengivegir sem eru enn ekki lagðir bundnu slitlagi — það er mjög mikilvægt að ráðast í að bæta úr þar og fá aukið fjármagn til uppbyggingar og viðhalds. Malarvegir í byggð á starfssvæði Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga á Suðurlandi eru samtals 452 km og tengivegir þar af 414 km. Þið sjáið því að þetta er mjög viðamikið verkefni og brýnt að koma bundnu slitlagi á malarvegi á þessu svæði. Miðað við óbreytt fjármagn samkvæmt gildandi vegáætlun mun það taka 75 ár að ljúka við að leggja bundið slitlag á þessa vegi. Það sjá allir að það er löngu tímabært að gert verði sérstakt átak í lagfæringu malarvega og það á reyndar við um alla landshluta, svo að ekki sé minnst á Vestfirði. Auk þess leggja samtökin áherslu á mikilvægi þess að tryggja öflugar dýpkunarframkvæmdir í Landeyjahöfn og að höfninni sé haldið opinni allt árið um kring. Það skiptir verulegu máli fyrir samfélagið í Vestmannaeyjum. Sama gildir um höfnina í Þorlákshöfn, ég hef rætt hana aðeins fyrr, og Grynnslin við ós Hornafjarðar og svo Hornafjarðarhöfn.

Samtökin leggja einnig áherslu á að kostnaðarskiptingu verði breytt, þ.e. það sem lýtur að endurbótum við gerð varnargarða, úr 60% hlut ríkisins og 40% hlut sveitarfélaganna í 85% og 15%. Í því samhengi er bent sérstaklega á viðhaldsframkvæmdir við Garð á Suðurfjörum við Hornafjörð sem breytir varnargarði út í Einholtskletta, að þá muni draga úr sandburði inn á Grynnslin við ósa Hornafjarðar. Hornafjarðarhöfn og innsiglingin er náttúrlega mjög mikilvæg fyrir þetta svæði sem byggir að stórum hluta á fiskvinnslu og útflutningi fiskafurða.

Auk þess leggja Samtök sveitarfélaga á Suðurlandi það til að sveitarfélögin á Suðurlandi séu brautryðjendur í grænum samgöngum á Íslandi, líkt og gert var með rafvæðingu Herjólfs sem hefur bara heppnast ljómandi vel, og benda á að það þurfi að efla almenningssamgöngur. Samtökin ítreka mikilvægi almenningssamgangna á Suðurlandi og að við tilfærslu málaflokksins frá landshlutasamtökum til Vegagerðar verði að tryggja að þjónustan skerðist ekki heldur þvert á móti þróist og eflist. (Forseti hringir.)

Frú forseti. Ég náði ekki að fara endanlega yfir þessi atriði frá Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga hvað varðar samgönguáætlun þannig að ég óska eftir því að verða settur aftur á mælendaskrá.