150. löggjafarþing — 120. fundur,  19. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[00:38]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Frú forseti. Við stöndum frammi fyrir því, í umræðu um samgönguáætlun og skyld mál, að uppi eru áform um að verja tugum milljarða af opinberu fé til framkvæmdar sem virðist ekki vera vel skilgreind en sýnist vera ætlað að bæta almenningssamgöngur og greiða för strætós undir kjörorðinu rauðir dreglar fyrir strætó. Fyrir liggur grein eftir höfund sem er með menntun á þessu sviði, hann er umferðarverkfræðingur. Hann hefur hlotið menntun við Cambridge-háskóla, við Tækniháskólann í Kaupmannahöfn og sömuleiðis aflað sér viðskiptamenntunar og rekstrarfræða frá Durham-háskóla. Þessi höfundur segir ýmislegt í sinni grein. Hann segir að þetta þurfi ekki að kosta tugi milljarða, þeim markmiðum sem þessum áformum er ætlað að ná megi ná með nokkrum milljörðum, eins og hann orðaði það. Hann segir sömuleiðis að á milli áranna 2018 og 2019 hafi kostnaðaráætlun verkefnisins hækkað úr 70 milljörðum kr. í 80 milljarða kr. Þetta er hækkun á milli ára, frú forseti, upp á 14,3% þannig að menn sjá að þetta er allt á floti. Af hverju erum við að tala um þetta verkefni? Af hverju leggur Sjálfstæðisflokkurinn það á sig að ætla að verja 50 milljörðum af ríkisfé til að fjármagna eitthvert kosningaloforð Samfylkingarinnar og fylgiflokka í borgarstjórn Reykjavíkur? Er þetta eins ábyrg meðferð á almannafé og hægt er að ætlast til?

Frú forseti. Hvar eru raunhæfar kostnaðaráætlanir? Hvar eru svörin við því sjónarmiði sem hér er haldið fram af marktækum manni, að hægt sé að ná þessu markmiði fyrir nokkra milljarða en ekki tugi milljarða? Hvar er arðsemisgreiningin? Hvar er greining á vikmörkum kostnaðar?

Frú forseti. Hvar er rekstraráætlun borgarlínu? Hver er kostnaðurinn á ári hverju? Hverjar eru tekjurnar? Hverjar eru rekstrarforsendur þessarar borgarlínu?

Af hverju er allt í þoku hérna varðandi einhver veggjöld? Af hverju er farið að tala um einhver flýtigjöld? Hver hafði áður heyrt talað um flýtigjöld? Hvers konar framganga er það af flokki eins og Sjálfstæðisflokknum, sem kynnir sig sem ábyrgan í ríkisfjármálum, að ganga fram með þessum hætti, að ætla að ausa milljarðatugum í þetta verkefni með algerlega óljósum forsendum um kostnað, eitthvert tal hægri-vinstri? Eins og hv. þm. Karl Gauti Hjaltason sem er hér í salnum nefndi er verið að tala um einhver veggjöld, ýmist í austur eða vestur í a.m.k. þremur frumvörpum sem liggja fyrir hinu háa Alþingi.

Hinn ágæti höfundur rekur að haldið sé uppi alls konar áróðursstarfsemi og nefnir í því sambandi vefsvæðið borgarlína.is. Mér gefst ekki tími til að rekja þau dæmi eins og vert væri en ég bið forseta um að setja mig aftur á mælendaskrá.