150. löggjafarþing — 120. fundur,  19. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[00:43]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Karl Gauti Hjaltason) (M):

Frú forseti. Ég ætlaði kannski ekki að tala í þessari ræðu um veggjöld eða það sem hefur verið að gerast hér í borginni undanfarið en menn hafa talað um það og talsmaður Sjálfstæðisflokksins í samgöngumálefnum á höfuðborgarsvæðinu hrósar happi yfir því að búið sé að ganga frá þessum samningi við ríkið og nágrannasveitarfélögin og Reykjavíkurborg, þessa aðila sem eiga aðild að samningnum. Ég skil það mætavel. Ég skil það mætavel þegar þau upplifa sig í herkví þeirra aðstæðna sem hafa verið hér á höfuðborgarsvæðinu á undanförnum mörgum árum, þ.e. að það sé algjört framkvæmdastopp og það gangi hvorki né reki í nokkrum þeim málum sem horfa til greiðari samgangna árum saman. Nágrannasveitarfélögin, sem eru ansi mörg, ég ætla ekki að nefna þau hér öll með tölu, hafa eðlilega upplifað sig í þessari herkví. Það gerist ekkert í samgöngumálum vegna afstöðu meiri hlutans í höfuðborginni til samgöngumála þar sem ekkert hefur mátt gera árum saman vegna ofurtrúar þeirra á almenningssamgöngur. Þeim var vitanlega gefið ráðrúm til að fara í tilraunaverkefni með styrk ríkisins til að leitast við að efla almenningssamgöngur með engum árangri. Síðan kemur þessi afskaplega ágæta hugmynd að losa nágrannasveitarfélögin úr þeirri herkví og segja sem svo við þau: Nú skulum við fara í það að greiða leið vegfarenda í kringum höfuðborgina.

Nágrannasveitarfélögin fengu eitt af öðru að velja sér verkefni, það ætti að breikka hérna og gera mislæg gatnamót þar og hér. Jafnvel Sundabrautin var nefnd, sem hefur nú verið í algeru banni áratugum saman sem sætir auðvitað furðu allra sem hafa fylgst með því máli. En þegar því var lofað að nú skyldi farið í framkvæmdir á stofnbrautum þá sáu menn kannski fram á að þeir kæmust til og frá vinnu á eðlilegum tíma á þessum stuttu vegalengdum sem eru á höfuðborgarsvæðinu.

Og hvert var gjaldið, frú forseti? Það var auðvitað stórkostleg hugmynd hjá meiri hlutanum í Reykjavík að losa nágrannasveitarfélögin úr þessari herkví sem þau voru í með því að láta þau samþykkja einhverjar upphæðir, sem voru nú ekki miklar, til svokallaðrar borgarlínu, sem eins og alkunna er, og hefur margoft komið fram hér í umræðum, er illa ígrunduð og útfærð hugmynd og breytist næstum mánaðarlega hvernig það á að gerast. Auðvitað var það lítið gjald fyrir nágrannasveitarfélögin til að fá greiðar samgöngur í kringum sitt bæjarfélag og þau greiddu það. Þetta hef ég og fleiri kallað lausnargjald úr þessari herkví. Þau greiddu það.

Það furðulegasta við þessa sögu, sem ég er að reyna að segja, er að ríkisstjórnin sem samanstendur af þremur flokkum, sem ekki eru allir í meiri hluta borgarstjórnar í Reykjavík, leiðir þessa flokka inn í þessa gildru með bundið fyrir bæði augu. Þeir skyldu borga brúsann af þessu, borga lausnargjaldið raunverulega fyrir þá aðila sem áttu aðild að þessum samningi.

Þetta vekur mikla furðu, frú forseti, og er eins og leikhúsfarsi, ég myndi kannski helst vilja nefna þetta það. Ef áætlanir um borgarlínu eru skoðaðar er það alveg merkilegt að allt þetta ágæta fólk skyldi ganga beint inn í þessa gildru og greiða lausnargjaldið fyrir meiri hlutann í Reykjavík til að sá meiri hluti geti komið draumum sínum á framfæri.