150. löggjafarþing — 120. fundur,  19. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[00:48]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Frú forseti. Mig langar í þessari ræðu að fara aðeins yfir Reykjavíkurflugvöll. Eins og allir vita sem hafa gert samkomulag eða samkomulög við Reykjavíkurborg undanfarin ár er vart að treysta á samkomulag sem Reykjavíkurborg hefur skrifað undir. Það hefur margkomið fram, og m.a. vakti ég athygli á því í dag að líklega stendur stærsta byggingarframkvæmd á Reykjavíkursvæðinu núna yfir í dálítinn tíma þar sem áður var svokölluð neyðarbraut, sem menn voru búnir að dragast á og ekki bara dragast á heldur heita því að yrði opin áfram. En allt kom fyrir ekki og hún heyrir nú sögunni til.

Það var líka uppi samkomulag um að innanlandsflugvöllur yrði í Vatnsmýri, þ.e. í samningi sem ráðherra og borgarstjóri gerðu fyrir hönd ríkis og borgar um framkvæmd veðurfarsrannsókna í Hvassahrauni, uns jafn góður eða betri kostur á suðvesturhorninu væri tilbúinn til notkunar. Efndir þessa hafa verið ansi litlar einnig vegna þess að mjög nýlega kom í ljós að borgarstjórnarmeirihlutinn í Reykjavík hafði skipulagt flugvallarsvæðið með þeim hætti að akbraut átti að fara í gegnum flugskýli sem þar var á vellinum, en baðst reyndar afsökunar á því tveim dögum síðar þegar þetta hafði komið fram. Þá sagði fulltrúi Pírata, sem var talsmaður skipulagsyfirvalda í Reykjavík, að gerð hefðu verið, eins og hún sagði, lítilvæg mistök við þetta og vegurinn hefði aldrei átt að liggja í gegnum flugskýlið sem er svo sem auðskiljanlegt hverjum þeim sem hefur lagt veg, að menn leggja yfirleitt ekki vegi í gegnum eignir annarra eða í gegnum hús. En þetta er kannski dæmi um það að nú á að fara að þrengja verulega að vellinum, þ.e. suðvestur eða austur/vestur-brautinni og það er næsta víst að ef þau byggingaráform verða að veruleika þá mun nýting vallarins minnka mjög.

Mín trú er sú, herra forseti, að ef þetta fer fram eins og þarna lítur út fyrir, að menn ætli smám saman að kyrkja þennan völl — sem nota bene er ekki bara innanlandsflugvöllur heldur hefur til skamms tíma verið varaflugvöllur þannig að þotur, t.d. Icelandair, hafa getað lent þarna ef þannig ber undir. En það er að vísu búið að vera ansi harðsótt undanfarið vegna þess að öryggisskilyrði á Reykjavíkurflugvelli hafa versnað mjög frá því sem var fyrir nokkrum árum. Er vakt þar t.d. utan dagvinnutíma varla til og auk þess eru önnur öryggisatriði, svo sem eins og eldvarnir o.fl., í því ástandi að varla er hægt að gera ráð fyrir því að þar muni stórar vélar lenda þótt vissulega sé þörf á því að slík lendingaraðstaða sé til ef Keflavíkurflugvöllur lokast einhverra hluta vegna, sem hann hefur reyndar gert nokkrum sinnum, t.d. í hittiðfyrra, og það var ekki síst vegna þess að þá hreinlega vantaði bjargir til þess að halda vellinum opnum því að veður var ekki það vont í öllum tilfellum að það væri ástæða til að loka vellinum að öðru leyti heldur en því að menn höfðu ekki staðið við að hafa nægilegar bjargir til handa til að nota.

En ég vil bara ítreka, herra forseti, að þetta mál er í uppnámi eins og mjög margt annað þar sem annar aðili samnings er Reykjavíkurborg. Það er ekki á vísan að róa að gera samning við það apparat vegna þess að hann er óðara svikinn en hefur verið skrifað undir hann. En ég sé að nú er tími minn búinn rétt einu sinni og bið forseta um að setja mig á mælendaskrá að nýju.