150. löggjafarþing — 120. fundur,  19. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[01:04]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Herra forseti. Mig langar aðeins að nefna umsögn Viðskiptaráðs Íslands um samgönguáætlun. Viðskiptaráð fer ágætum orðum um þær fyrirætlanir að fara í auknar framkvæmdir og flýta framkvæmdum en hefur um leið áhyggjur af því að uppbyggingin næstu áratugi, það sem kemur fram í langtímaáætlunum, sé ekki næg, sýnist mér á þessari umsögn. Þá er minnst á greiningar sem hefði mátt fara í.

Í vangaveltum Viðskiptaráðs um það hvort framkvæmdir séu nægar eða uppbygging sé næg næstu áratugi er bent á að útgjöld, samkvæmt fimm ára áætlun, virðast dragast saman um 17% að raunvirði frá 2020–2024. Í umsögninni er bent á annað, þ.e. að meðalútgjöld hvers fimm ára tímabils í 15 ára áætlun aukist um 1,3% á ári. Það er svo sett í hlutfall við landsframleiðslu sem þýðir að útgjöldin munu lækka svo fremi sem hagvöxtur verður meiri en 1,3% að meðaltali.

Í álitinu segir, með leyfi forseta:

„Meðalhagvöxtur á Íslandi síðustu 20 ár hefur verið 3,3% og til lengri tíma gerir Hagstofa Íslands ráð fyrir 2,5% hagvexti. Rætist langtímaspá Hagstofunnar þýðir það að hlutdeild ríkisframlaga til samgöngumála í landsframleiðslu lækki um 16% og jafnvel meira ef tekið er tillit til hversu mikið útgjöldin lækka á allra næstu árum. Það hlýtur því að teljast líklegt að til lengri tíma verði fjárfesting í samgönguinnviðum að óbreyttu of lítil.“

Þrátt fyrir góðan hug og vilja samgöngunefndar er vert að hafa í huga þessi varnaðarorð Viðskiptaráðs, að sé allt tekið inn í myndina, spár um hagvöxt og raunvirði fjármuna við þær framkvæmdir sem fara þarf í, virðist þurfa að bæta enn frekar í.

Síðan kemur fram á bls. 2, eða á seinni blaðsíðu þessarar umsagnar, að ráðið telur að þurft hefði að fara í ákveðna greiningu á því hvað er mikilvægast og raunhæfast að fara í til að ná sem hagkvæmastri nýtingu fjármuna og fjárhagslegum ábata sem talað er um í áætluninni. Viðskiptaráð segir að það sé vægast sagt óljóst hvernig eigi að ná þessari hagkvæmu nýtingu fjármuna og þjóðhagslegum ábata. Að sjálfsögðu, sem er ósköp eðlilegt af hálfu Viðskiptaráðs, er hvatt til aukinnar aðkomu einkaaðila að framkvæmdum.

Hér eru enn ein varnaðarorðin þegar við horfum á það hvernig til lengri tíma litið er horft á þessar fjárveitingar.

Í nefndaráliti 2. minni hluta segir, með leyfi forseta:

„Sérstaklega ber að fagna því að í áliti meiri hluta nefndarinnar er tekið fram að atbeina Alþingis þurfi, eftir atvikum í samgönguáætlun eða fjárlögum hverju sinni, til að ráðist verði í ákveðnar framkvæmdir, t.d. samkvæmt samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins.“

Meiri hlutinn hefur kveðið upp úr með það í áliti sínu að Alþingi þurfi að hafa aðkomu að framkvæmdum og útgjöldum, m.a. samkvæmt samgöngusáttmálanum. Þess vegna held ég að það sé mjög mikilvægt að við reynum að yfirfæra þessa hugsun inn í önnur þau þingmál sem við erum með hér á dagskránni á næstu dögum, þau sem við þurfum að afgreiða samtengt þessari samgönguáætlun. Það er mjög mikilvægt að þessi hugsun komist þangað líka þannig að þessi vilji umhverfis- og samgöngunefndar sé alveg augljós, að Alþingi þurfi að koma að ákvörðunum eða framkvæmdum og útgjöldum sem kunna vitanlega að verða í tengslum við þennan samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins.

Ég tel mikilvægt að þetta komi hér fram og mun ég fara aðeins dýpra í þá hugsun sem þarna er að baki. Eitt af því sem við þingmenn Miðflokksins gagnrýnum hér er að ekki er allt ljóst varðandi útgjöld er lýtur að samgöngusáttmálanum sem hægt væri að ramma inn með einföldum hætti sé horft til þess sem hér stendur frá meiri hluta nefndarinnar.