150. löggjafarþing — 120. fundur,  19. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[01:20]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Karl Gauti Hjaltason) (M):

Herra forseti. Ég hef í nokkrum ræðum fjallað töluvert um samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins og sett í samhengi við þann vanda sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa verið í og höfuðborgarsvæðið allt í samgöngumálum á undanförnum árum og jafnvel áratugum. Ég hef einnig fjallað töluvert um veggjöldin og lýst þeirri skoðun minni að veggjaldahugmyndir stjórnarinnar séu svolítið á víð og dreif, ef ég má orða það svo. Eins og ég hef bent á liggja fyrir þrjú stjórnarmál sem gera ráð fyrir veggjöldum með ólíkri nálgun og hefur verið farið rækilega yfir hver þessi frumvörp eru. Það eru allt frumvörp og þingsályktunartillögur sem hafa ekki hlotið fulla afgreiðslu hér, liggja frammi og eru mislangt komin í umræðunni. Það er gert ráð fyrir veggjöldum í þremur þingmálum, á mismunandi hátt og í mismunandi útfærslum en þau eiga það öll sammerkt að vera ansi óskýr hvað þetta varðar. Ég hef verið að kalla eftir því að stjórnvöld kæmu með útfærða hugmynd á einum stað þannig að fólk gæti tekið ígrundaða afstöðu til veggjalda og fengi þá að sjá á öll spil stjórnvalda. En þegar þetta er sett fram með þessum hætti í þremur málum með mjög ólíkri nálgun finnst mér ég ekki geta fallist á það eða skrifað undir t.d. þessa samgönguáætlun. Þess vegna skilaði ég m.a. séráliti ásamt félaga mínum, hv. þm. Bergþóri Ólasyni.

Ég minntist á það líka, meira í gamni en alvöru, að fyrsta vegtollinn hér á landi virðist vera hægt að rekja til Snæfellinga. Það var bóndi á Stað á Snæfellsnesi, Grani hét hann, sem innheimti svokallaðan Granatoll á veginum um jörð sína. Hann var talinn bóndi ágjarn og auðugur en það fór illa hjá honum. Vegfarendur virðast hafa grandað honum að lokum þannig að sá tollur féll eðlilega niður strax þar á eftir.

Ég ætlaði að fjalla um jarðgangahluta samgönguáætlunar. Við í 2. minni hluta höfum lýst yfir vonbrigðum með að á því rúma ári sem liðið er frá samþykkt síðustu samgönguáætlunar hér á þingi hafi ekki tekist að undirbúa betur og leggja fyrir þingið nýja jarðgangaáætlun. Við tökum undir það sem kemur fram í áliti meiri hlutans um mikilvægi þess að samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hraði þeirri vinnu. Ég tek einnig undir með meiri hlutanum um að unnin verði heildstæð greining á jarðgangakostum á Íslandi þar sem þeir verði metnir með tilliti til þjóðhagslegs ábata, hagkvæmni og byggðasjónarmiða. Þannig að við tökum undir með meiri hlutanum að miklu leyti varðandi jarðgöngin.

Í meirihlutaálitinu er fjallað um jarðgöng á rúmlega blaðsíðu. Þar eru nefndir fjölmargir og auðvitað rándýrir kostir. Ég tek undir margt þar. Þar segir: „Eina verkefnið í áætluninni eru jarðgöng á Austurlandi.“ Ég tek undir með meiri hlutanum sem leggur áherslu á að jarðgangagerð á Austurlandi skili ekki fullum ávinningi nema verkefni verði unnið sem samfelld heild sem skili hringtengingu vega í landshlutanum. Það segir svo í álitinu:

„Því þarf seinni áfanginn, göng milli Seyðisfjarðar og Norðfjarðar, að fylgja í kjölfar Fjarðarheiðarganga. Raunar gæti vinna við göngin milli Seyðisfjarðar og Norðfjarðar hafist áður en vinnu við Fjarðarheiðargöng er að fullu lokið.“

Ég tek heils hugar undir þetta. Listinn er langur og víða eru kröfur um jarðgöng og í því sambandi má nefna að Færeyingar eru langt á undan okkur í öllu tilliti (Forseti hringir.) í jarðgangagerð.