150. löggjafarþing — 120. fundur,  19. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[01:30]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Ég hef verið að ræða kostnaðinn við borgarlínu, fyrst kostnaðinn við framkvæmdina sjálfa, byggingu apparatsins, og svo kostnaðinn sem allt er á huldu um, þann kostnað sem við tekur, rekstrarkostnaðinn af því að viðhalda hér tvöföldu almenningssamgöngukerfi, tvöföldu strætókerfi með hverfisvögnum og borgarlínu. Það á auðvitað að fjármagna þetta að mestu leyti með skattfé, með því að láta þá sem jafnvel nýta ekki þjónustuna borga fyrir hana á sama tíma og þrengt er að þeim. Auðvitað munu menn greiða einhver fargjöld en reynslan sýnir að þau hrökkva skammt til að standa undir svona batteríi, jafnvel bara hefðbundnu strætisvagnakerfi eins og við erum með nú þegar. Þar skila fargjöldin bara broti af því sem þarf til að reka það. Menn ætla engu að síður að halda áfram að leggja álögur á allan almenning fyrir þjónustu sem nýtist fæstum nema á öfugan hátt, ef svo má segja, til að þrengja að þeim og reyna að þvinga fólk til að nýta þjónustuna. Það verður greitt með sköttum.

En við sjáum líka í þessari áætlun, og svokölluðum samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins og ríkisstjórnarinnar, að menn ætla að fara ýmsar leiðir til viðbótar til þess a.m.k. að koma þessu af stað, t.d. selja eitt verðmætasta land Íslands, Keldnalandið. Jafnvel hefur verið nefnt að setja ríkisbankann Íslandsbanka inn í þetta, selja hann til að skrapa saman fjármagni í verkefnið, og svo er auðvitað opnað á að leggja ný gjöld á íbúa höfuðborgarsvæðisins. Þessi ríkisstjórn hefur sýnt nokkra hugmyndaauðgi við að finna upp ný gjöld, ekki hvað síst á umferð. Þá eru þau oft kölluð græn gjöld en fólk á Íslandi hefur lengi greitt fyrir notkun samgöngumannvirkja og uppbyggingu þeirra með ýmiss konar gjaldtöku sem þó hefur ekki runnið öll í það sem til var ætlast, ekki runnið í uppbygginguna nema kannski að hálfu leyti og ríkið tekið restina til sín.

En nú ætla menn sem sagt að gerast svo ósvífnir að bæta við nýjum gjöldum þrátt fyrir að hafa innheimt miklu meiri skatta og gjöld af fólki vegna samgangna en voru látin renna í þann málaflokk. En ekki hefur verið útfært frekar en nokkuð annað hvernig eigi að innheimta þau gjöld, hvort einhver hlið verði á höfuðborgarsvæðinu, á vegunum, enn meiri tafir auðvitað, sem er kostur að mati sumra sem hafa talað fyrir borgarlínu, eða hvort það eigi að hafa eins konar eftirlitskerfi þar sem tölva fylgist með því hvert menn fara á sínum bíl eða hvort eigi að vera myndavélar hér og þar sem taki ljósmyndir af bílum þegar þeir keyra fram hjá til að geta svo rukkað viðkomandi um ákveðna upphæð fyrir að hafa leyft sér að keyra á tilteknum vegi eða götu. Það er allt á huldu. Annaðhvort er það vegna þess að menn hafa ekki hugmynd um það sjálfir hvernig þeir ætla að innheimta þetta allt saman eða menn vilja ekki gefa það upp af því að þeir vilja ýta verkefninu úr vör, koma því á þann stað að það verði ekki aftur snúið áður en því er skellt á almenning með hvaða hætti hann eigi að borga þetta og hversu mikil þau útgjöld heimilanna verði. Ég skal ekki segja hvort er líklegra. En auðvitað er það ekki gott ef stjórnvöld hafa ekki hugmynd um hvað þau eru að gera. Í ljósi reynslunnar, og það er efni næstu ræðu, þykir manni óneitanlega líklegt að þetta sé liður í kerfisvæðingu þessa verkefnis, sem sagt koma því af stað þannig að ekki sé hægt að bakka og þá fyrst fái fólk að vita hvað það þurfi að borga (Forseti hringir.) inn í eilífðina til að viðhalda þessu apparati.