150. löggjafarþing — 120. fundur,  19. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[02:07]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Ég hef nú farið yfir kostnaðinn við gerð borgarlínu og óvissuna sem ríkir um kostnaðinn sem tekur við, þ.e. rekstrarkostnaðinn. Ég hef líka rakið þær leiðir sem hafa verið nefndar til að standa straum af þessum kostnaði öllum saman. Þær eru fjölskrúðugar en margar þeirra hins vegar mjög óljósar. Þá er komið að því, eins og ég gat um í lok síðustu ræðu minnar, að velta því fyrir sér eða reyna að skýra hvers vegna svona lagað gerist.

Hvernig má það vera að Sjálfstæðisflokkurinn ætli að ráðast í nýja gjaldtöku, leggja ný gjöld á almenning, ætli að selja eina verðmætustu eign ríkisins, a.m.k. eitt verðmætasta land Íslands, ætli jafnvel að selja banka og nota það til þess að uppfylla kosningaloforð Samfylkingarinnar í Reykjavík? Hvernig gerist þetta? Og ekki bara hvaða kosningaloforð sem er heldur kosningaloforð um aukna neyslustýringu og að þrengja að fólki sem fer ferða sinna á fjölskyldubíl, fólki sem naut skilnings hjá Sjálfstæðisflokknum áratugum saman, sem skildi mikilvægi þess að liðka fyrir samgöngum og kunni að meta það frelsi sem fólk bjó við á einkabílnum, að geta komist leiðar sinnar. Hvernig gerist það að Sjálfstæðisflokkurinn varpar þessu öllu fyrir róða og ákveður að finna upp ný gjöld til þess að geta aðstoðað Samfylkinguna við að standa við kosningaloforð sín?

Það gerðist með kerfisvæðingu málsins. Ég gleymdi reyndar að nefna það í þessu samhengi að þessi kosningaloforð voru ekki sett fram í fyrsta skipti fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar. Það var ekki í fyrsta skipti sem borgarlínu var lofað, það hafði verið notað áður sem kosningaloforð og búnar til glærur og allt það, en svo gerðist ekki neitt. Það gerðist ekki neitt fyrr en núna að Samfylkingin keyrði á þessu alla kosningabaráttuna: borgarlínu, borgarlínu, borgarlínu. Nú tókst að fá Sjálfstæðisflokkinn til að sjá um að fjármagna þetta vegna þess að borgin kunni leikinn, kunni á að kerfisvæða málið. Vitandi það að við sitjum uppi með kerfisstjórn gat borgin haft nokkra vissu fyrir því að um leið og málið væri orðið kerfisvætt þá gengi þetta eftir.

Og þá að aðferðinni, hvernig þetta gerist. En áður en ég kem að aðferðinni sjálfri vil ég reyndar nefna að við sjáum hversu örugg borgin er með sig. Hún er þegar búin að setja upp heilmikið apparat, heilmikið kerfi, í kringum þessa framkvæmd, stofna verkefnastofu borgarlínu, ráða verkfræðinga til starfa þar fyrir utan kynningarfulltrúa, búa til nýjar sýningar — það er einmitt sýning í gangi núna í Ráðhúsinu, kynning á þessu öllu — án þess að Alþingi sé búið að samþykkja málið. En borgin veit að hér stjórnar kerfisstjórn og kerfisstjórnin mun gera eins og kerfið ætlast til af henni. Þess vegna er borgin einfaldlega byrjuð að vinna að þessu verkefni þótt þingið sé ekki búið að taka ákvörðunina. Hvernig var þetta gert? Hvernig fór þessi kerfisvæðing fram? Það byrjaði með því að innleiða þetta í vinnu borgarinnar og tengja við önnur verkefni þar sem kerfið var þegar komið á skrið. Þetta birtist t.d. mjög skýrt í þessu hefti um borgarlínuna, hvernig borgarlínuverkefnið er tengt við verkefnið um þéttingu byggðar, sem er annað verkefni sem búið er að kerfisvæða; búið að búa til apparat um það, ráða fullt af fólki til að vinna að þessu, gera fyrirtæki háð því að taka þátt í þessum leik og skipulagið vinnur með, það var til staðar. Þá er næst að tengja nýja verkefnið, borgarlínuverkefnið, við hitt kerfisverkefnið, þéttingu byggðar. Það er þannig skýrt hér að þétting byggðar er forsenda borgarlínu en borgarlína er líka forsenda þéttingar byggðar. Þannig fer hringrásin af stað, búið að tengja inn í kerfið sem var til staðar, byrjað að byggja upp apparat í kringum … (Forseti hringir.) — Frú forseti. Ég er bara rétt að byrja á þessum skýringum mínum á kerfisvæðingu borgarlínunnar og bið því um að vera settur aftur á mælendaskrá.