150. löggjafarþing — 120. fundur,  19. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[02:18]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Frú forseti. Ég ætlaði reyndar að vera búinn að finna hér ákveðið atriði í nefndaráliti meiri hlutans en ég verð aðeins að geyma það. Ég finn það fyrir næstu ræðu. Mig langar þá að halda aðeins áfram á sömu braut og ég og svo sem aðrir höfum talað hérna um, þ.e. óvissuna sem ríkir um borgarlínuverkefnið og þá 50 milljarða kr. fram til ársins 2033 sem á að veita í þetta verkefni.

Annar minni hluti segir í sínu nefndaráliti að ekki hafi verið sýnt fram á að þau markmið sem sett eru fram með framkvæmdinni náist. Þá er sérstaklega bent á að engin haldbær kostnaðaráætlun fylgi. Og ég þreytist ekki, frú forseti, að hamra á því að það er ábyrgðarhluti að alþingismenn skuli ætla að samþykkja að ekki sé allt á tæru varðandi framlög og skuldbindingar ríkisins þegar kemur að þessari framkvæmd.

Það er auðvitað líka umhugsunarefni að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu skuli gera slíkt hið sama. Bæði sveitarfélögin og Alþingi taka ákvarðanir sem snerta hagsmuni borgarbúa og íbúa sveitarfélaganna í kring mögulega með mjög afgerandi hætti ef við lendum t.d. í þeirri stöðu að þetta verkefni fari langt fram úr áætlun, sem eru vitanlega miklar líkur á. Við höfum einmitt heyrt dæmi um slíkt í kvöld, fyrir utan það sem við þekkjum af framkvæmdum sveitarfélaga, ekki síst hér í borginni. Það er mjög undarlegt að fólk skuli vera komið í þær stellingar að þetta þurfi bara að keyra í gegn. Það er bara að klára þetta og halda áfram, alveg sama, virðist vera, þó að óvissan sé töluvert mikil.

Í nefndarálitinu er einnig talað um að arðsemismat og rekstraráætlun liggi ekki fyrir og óljóst sé hver beri kostnað af rekstrinum að framkvæmdum loknum. Lykilatriðið er að þetta sé skýrt. Ég tek undir með þeim sem hafa velt því fyrir sér hvernig standi á því að Sjálfstæðisflokkurinn, sem eitt sinn í það minnsta var ábyrgur í ríkisfjármálum, skuli geta tekið eða mælt með því að afgreiða málið með þessum hætti. Það hefur í það minnsta enginn talsmaður þess flokks komið hér upp og sagt að þetta sé ekki svona eins og við segjum að þetta sé, komið með sannanir eða sýnt okkur fram á að búið sé að geirnegla allt sem viðkemur kostnaðinum, rekstrarkostnaði og öðru slíku.

Við vitum alveg hvernig hlutirnir ganga fyrir sig. Hér hefur reyndar verið nefnt dæmi um framkvæmdir á Norðurlandi, áðurnefnd Vaðlaheiðargöng, í einni ræðu. Svo má ekki heldur gleyma þessum litlu göngum á Húsavík, í tengslum við framkvæmdir á Bakka. Allt lendir þetta á endanum í fanginu á ríkinu meira og minna af því að menn vanda ekki til og eru ekki með allar tölur og allt uppi á borðinu, eins vel ígrundað og mögulegt er. Það er það sem mun gerast í þessu máli. Þegar allt fer í vitleysu og kostnaður fram úr öllum áætlunum verður komið til ríkisins og sagt: Það er ekki hægt að láta verkefnið stoppa, ríkið verður að koma með meiri fjármuni inn í það. Það mun gerast. Spurningin er bara hvenær. Ég hugsa að fyrr en síðar þurfi að taka þetta upp vegna þess að áætlanir munu fara úr böndum.

Ég reyni hér á eftir, frú forseti, að finna þennan kafla sem ég ætlaði að fjalla um í nefndaráliti meiri hlutans vegna þess að hann á erindi við vitanlega þetta mál og mál sem eru tengd samgönguáætlun og við erum með á dagskrá og verða væntanlega síðar rædd. Þetta mál er hins vegar mikilvægt að fá botn í og munum við að sjálfsögðu ræða það þar til það gerist.