150. löggjafarþing — 120. fundur,  19. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[02:23]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Frú forseti. Ég vil koma aðeins inn á flugstefnu og fraktflug. Á bls. 2 í greinargerð 15 ára áætlunarinnar eru settar fram almennar áherslur í ljósi markmiðs um greiðar samgöngur sem tengjast flutningum. Þegar að fraktflugi kemur er öll umfjöllun frekar rýr. Flugstefna Íslands liggur fyrir á vef Alþingis en hún er einnig fylgiskjal með greinargerð 15 ára áætlunarinnar og við lestur hennar er auðsætt að einnig þar hefur fraktflug fengið takmarkað vægi. Þetta er svokölluð grænbók um flugstefnu Íslands. Það verður að segjast eins og er að þetta eru vonbrigði, frú forseti, vegna þess að mikilvægi fraktflugs til og frá landinu hefur sannast nú í veirufaraldrinum. Við fengum fréttir af því að lækningavörur, öndunarvélar og o.fl., hafi verið að berast með fraktflugi. Mikilvægi fraktflugs til og frá landinu hefur vaxið frekar en hitt. Auk þess er afar mikilvægt að við tryggjum alla þá aðstöðu sem nauðsynlegt er að hafa þegar kemur að fraktflutningum.

Umtalsverður hluti ferskra matvara sem eru á boðstólum á innlendum markaði er fluttur inn með fraktflugi. Þó svo að við höfum lagt áherslu á að velja íslenskt eru ákveðnar vörur í þessum vöruflokki fluttar til landsins, t.d. grænmeti og ávextir, eins og við þekkjum. Þetta eru að jafnaði kælivörur sem erfitt er að flytja samhliða farþegaflugi. Innflutningur á ferskum matvörum er því yfirleitt á vegum fraktflutningavéla.

Síðan þekkjum við mikilvægi þess að flytja út ferskan fisk með fraktflugi. Við verðum að átta okkur á því að við verðum að vera samkeppnishæf þegar kemur að þessum efnum. Tíðni fraktflugs skiptir sköpum fyrir vöruframboð til og frá landinu og þar með fyrir vöruúrval og lífsgæði okkar, í raun og veru. Stærsti hluti vörumarkaðar á Íslandi er á höfuðborgarsvæðinu og helstu dreifingarmiðstöðvar eru þar. Það er því mjög mikilvægt að taka undir áhersluna, sem kemur fram í grænbókinni um flugstefnuna, á að bæta aðstöðu og þjónustu við fraktflug á Keflavíkurflugvelli. Ég hefði viljað sjá meira rætt um það í samgönguáætlun. Áttum okkur á því að þegar flugfélagið WOW air hætti starfsemi og varð gjaldþrota dróst tíðni fraktflugs verulega saman. Þess vegna er afar mikilvægt að við leitum leiða til að auka fraktflug til og frá landinu, m.a. vegna útflutnings okkar og þá sérstaklega ferska fisksins sem er mikil verðmæti og gjaldeyrisskapandi. Til að það megi ganga vel verður aðstaðan að vera fyrir hendi. Auk þess ætti náttúrlega að skoða aðra möguleika með fraktflug, eins og t.d. frá Akureyri.

En yfir höfuð hefði ég viljað sjá ríkari áherslu á mikilvægi þessa þáttar. Auk þess er rétt að nefna að minni flugvellir geta skipt miklu máli hvað varðar sjúkraflug og að við búum vel að aðstöðunni á þeim flugvöllum, eins og t.d. í Vestmannaeyjum. Þetta þarf að vera í stefnumörkun flugstefnunnar og hefði átt að leggja meiri áherslu á í samgönguáætlun, eins og ég nefndi áðan. Ég verð því að segja að það eru svolítil vonbrigði (Forseti hringir.) hvað hefur verið gert lítið úr þessum mikilvæga þætti sem sannaði sig svo sannarlega í veirufaraldrinum með lækningavörur til og frá landinu.

Frú forseti. Ég óska eftir að verða settur aftur á mælendaskrá.