150. löggjafarþing — 120. fundur,  19. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[02:29]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Frú forseti. Ég hef í síðustu ræðum verið að fjalla um nefndarálit 2. minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar um samgönguáætlun, annars vegar til fimm ára og hins vegar til 15 ára. Þar eru sjónarmið sem gefa tilefni til að fjalla um og leggja út af. Ég vil byrja á að nefna það sem segir í nefndarálitinu um samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir en þar kemur fram að 2. minni hluti geri athugasemdir við útfærslu á samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir og bendi á að sú leið sé að mestu óútfærð og fullkomin óvissa ríki um fjárhæð veggjalda, bæði í einstökum tilfellum og almennt. Þá er ábending frá minni hlutanum um að betur færi á því að það frumvarp sem fjallar um samvinnuverkefni í vegaframkvæmdum yrði útfært sem rammalöggjöf um framtíðarverkefni. Bent er á að þingið gæti síðar ályktað að tiltekin verkefni féllu undir þá löggjöf í stað þess sem lagt er til, að tilgreina sérstaklega hvaða verkefna skuli horft til miðað við þá aðferð sem kennd er við samstarf opinberra aðila og einkaaðila. Reyndar er bent á í áliti 2. minni hluta að sum þeirra verkefna sem þarna séu tilgreind séu ekki sérstaklega hentug sem slík verkefni heldur væru þau hefðbundin og heppileg viðfangsefni fyrir Vegagerðina.

Frú forseti. Það er ekki langur en samt sem áður þýðingarmikil kafli í álitinu um jarðgangaáætlun þar sem 2. minni hluti lýsir vonbrigðum með að ekki hafi tekist á því rúma ári sem liðið er frá samþykkt síðustu samgönguáætlunar að undirbúa betur nýja jarðgangaáætlun.

Það hafa verið mjög nýtar og góðar framkvæmdir í jarðgöngum og þarna myndast auðvitað sérhæfing og samþætting sem er í eðli sínu verðmæt. Þeir aðilar sem þarna hafa komið að hafa öðlast langa reynslu af þeim verkefnum og samstarfi og það væri afar mikið tjón ef það færi forgörðum. En auðvitað er mikilvægt að það sé traust, góð og ábyrg jarðgangaáætlun í gildi á hverjum tíma sem hægt er að reiða sig á. Jarðgöng eru mikil samgöngubót og til þess fallin að efla mjög öryggi í umferðinni úti um land. Í áliti 2. minni hluta er tekið undir með meiri hluta samgöngunefndar í því efni að unnin verði heildstæð greining á jarðgangakostum á Íslandi og lagt til að þeir verði metnir með tilliti til þjóðhagslegs ábata, hagkvæmni og byggðasjónarmiða. Allt eru þetta mikilvæg efni.

Í álitinu er sömuleiðis fjallað um framtíðargjaldtöku af umferð, ég hef ekki tíma til að fjalla um það. Sömuleiðis er ástæða til að fjalla nánar um flugið en ég hef haft tækifæri til að gera, frú forseti, og til að eiga möguleika á því vil ég biðja um að vera settur á mælendaskrá að nýju.