150. löggjafarþing — 120. fundur,  19. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[02:41]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég ætlaði að taka til máls um fundarstjórn forseta en það sem ég segi breytist óhjákvæmilega aðeins vegna þess að í millitíðinni var skipt um mann á forsetastóli. Ég veit ekki alveg hvort ég get óskað þeim forseta sem nú situr sérstaklega til hamingju með daginn. En ég ítreka hamingjuóskir til þess forseta sem sat hér áðan þegar ég bað um orðið um fundarstjórn forseta. Ég vildi þakka þeim hæstv. forseta fyrir að verja upphafi dagsins, og væntanlega eitthvað áfram, með okkur.

En ég hefði mjög gjarnan viljað að hæstv. forseti, sem sat hérna rétt áðan, fengi líka að nota daginn til að ræða við okkur þau mál sem eru á dagskrá því að hv. þingmaður, stundum forseti, hefur einmitt reynst vera talsmaður Sjálfstæðisflokksins í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu, komið í andsvör við okkur og (Forseti hringir.) stundum leitast við að útskýra hlutina fyrir okkur. Og við fáum þá kannski betri sýn á hvað menn eru að fara. Hér hafa safnast saman margar spurningar sem er ósvarað og því (Forseti hringir.) hvet ég hv. þingmenn til dáða.