150. löggjafarþing — 120. fundur,  19. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[02:50]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Ég var byrjaður að útskýra hvernig borgaryfirvöld, undir forystu Samfylkingarinnar, hefðu farið að því að fá ríkisstjórnina, Sjálfstæðisflokkinn sérstaklega, til að fjármagna kosningaloforð Samfylkingarinnar. Það hefði verið gert með því kerfisvæða málið og ég var byrjaður að útskýra hvernig það hefði gengið fyrir sig. Fyrst var grunnurinn lagður innan borgarinnar með því að tengja það við mál sem þegar höfðu verið kerfisvædd, eins og þéttingu byggðar. Svo er farið í það að flækja ríkisvaldið í þessu neti, skulum við segja, og byrjað á því að láta ráðherra skrifa undir hvers konar samninga. Þetta er stundum kallað salamíaðferðin. Smátt og smátt er ríkið sett í þá stöðu að þurfa að gefa meira og meira eftir.

Í raun má segja að borgin hafi byrjað á því að búa til vandamál sem hún ætlaði síðan að láta ríkið um að leysa, til að mynda með þessum samningi — nú er að verða liðinn áratugur síðan hann var gerður — um styrki ríkisins til borgarinnar vegna Strætó. En á sama tíma var sett framkvæmdastopp á mikilvæga innviðauppbyggingu með þeim afleiðingum að umferðarvandinn jókst til mikilla muna. Borgin gat svo tekið næsta skref og sagt við ríkið: Þetta gengur ekki svona, þið sjáið að hér er allt stopp. Eitthvað þarf að gera. Nú skulum við gera samning og leyfa ykkur að fara í framkvæmdir ef þið borgið lausnargjaldið, sem menn eru farnir að kalla svo, þ.e. fallist á borgarlínuna. Þar með er búið að flækja ríkisvaldið í netið og áfram heldur þetta að rúlla í kerfinu. Þétting byggðar er forsenda borgarlínu, borgarlína er forsenda þéttingar byggðar og svo sjáum við hvernig áfangarnir eiga einn af öðrum að festa það enn frekar í sessi.

Fyrsti áfanginn tengir ekki Grafarvog, ekki Breiðholt, ekki Árbæ, ekki stóran hluta borgarinnar við borgarlínuna. Nógu dýr verður þó fyrsti áfangi. Ég minni á að hann er álíka langur og borgarlínan í Edinborg þar sem allt fór úr böndunum. Þegar ríkið verður búið að borga þennan fyrsta áfanga með sveitarfélögunum verður auðvitað sagt: Það þýðir ekkert að stoppa hér. Ef þetta á að virka þarf að halda áfram. Nú sitja íbúar Grafarvogs, Breiðholts o.s.frv. fastir í umferðarteppum af því að borgarlínan verður búin að þrengja að umferðinni. Þeir hafa ekki aðgang að borgarlínu þannig að óhjákvæmilegt er að halda áfram. Og svona gengur þetta ár af ári og jafnvel áratug af áratug þegar búið er að kerfisvæða málið, búa til stofnanir til að halda utan um allt saman, fullt af fólki er í vinnu við verkefnið og ríkið búið að bíta á agnið og algjörlega kirfilega fast. Svo bætist auðvitað rekstrarkostnaðurinn við. Og hvað á ríkið þá að segja? Við ætlum ekki að setja meira í þetta? Hver eru viðbrögðin ef ríkið segir það? Svarið verður: Þið eruð búnir að fjárfesta svo mikið í þessu. Ætlið þið að kasta þeirri fjárfestingu á glæ? Áfram verður því haldið að setja fjármagn í þetta.

Við sjáum þessa kerfisaðferð birtast mjög víða, til að mynda í máli sem tengist borgarlínunni beint, þ.e. Landspítalanum við Hringbraut. Það eru mörg ár síðan flestir, held ég, gerðu sér grein fyrir og sættu sig við að það væru mistök að byggja viðbyggingu við Landspítalann við Hringbraut í stað þess að byggja einfaldlega nýjan spítala, t.d. í Keldnalandinu. En það var búið að kerfisvæða málið og áfram hélt það fyrir vikið á sömu braut og nú er Landspítalinn við Hringbraut meira að segja notaður sem rökstuðningur fyrir þeirri leið sem borgarlínan fer og borgarlínuleiðin notuð sem rökstuðningur fyrir framkvæmdum við Landspítalann. (Forseti hringir.) Svona verður til þessi endalausa hringrás kerfisins.