150. löggjafarþing — 120. fundur,  19. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[03:11]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Það liggur fyrir í málinu umsögn frá Icelandair Group. Þar er á ferð fyrirtæki sem til skamms tíma var mjög öflugt, umfram allt þekkingarfyrirtæki, og öll vonum við að það nái að reisa sig við að nýju. Það er svolítið merkilegt að þessi umsögn er dagsett 10. janúar á þessu ári, sem er rétt í þann mund sem veiran var farin að láta á sér kræla. Ég tel að þau sjónarmið sem teflt er fram í þessari umsögn séu mjög áhugaverð. Þau hljóta að verða að teljast reist á mjög mikilli þekkingu og langri reynslu á vettvangi félagsins. Ég vil leyfa mér að nefna að ég minnist mjög ánægjulegrar heimsóknar atvinnuveganefndar í starfsstöð félagsins í Hafnarfirði þar sem m.a. er að finna flugherma af fullkomnustu gerð sem nýtast við þjálfun flugkappa, flugmanna og flugstjóra. Sú heimsókn opnaði augu mín að ýmsu leyti. Við fréttum að það væru fleiri tugir verkfræðinga að störfum fyrir félagið og maður fylltist aðdáun á því hvað þetta félag er langt komið á þróunarbrautinni sem samhæfð heild þar sem saman kemur mikið hæfileika- og kunnáttufólk með langa reynslu.

Svo að ég grípi niður í þessa umsögn, það sem ég tel skipta miklu máli — það er ýmislegt þarna sem er athyglisvert en þar er kafli sem fjallar um forgangsröðun í þágu Keflavíkurflugvallar og annar sem fjallar um uppbyggingu varaflugvalla sem mikilvægt verkefni. Í kafla um forgangsröðun í þágu Keflavíkurflugvallar er fjallað um að félagið telji nauðsynlegt að forgangsraðað verði í þágu slíkrar uppbyggingar fremur en að forgangsraðað verði í þágu annarra flugvalla. Félagið setur Keflavíkurflugvöll mjög á oddinn. Þetta er rökstutt m.a. með vísan til þess að mikið framboð sé á beinum flugum á milli áfangastaða Icelandair í Evrópu og Norður-Ameríku og að þessi félög hafi þegar ákveðið samkeppnisforskot, m.a. vegna skemmri ferðatíma. Á þeim grundvelli ályktar félagið í umsögninni að mikilvægt sé að tengingar á Keflavíkurflugvelli gangi greiðlega fyrir sig ef farþegar eigi að líta á slík tengiflug sem raunhæfan kost þegar bein flug eru annars vegar.

Það er rakið að á síðustu árum hafi tengiflugið liðið fyrir að uppbygging á Keflavíkurflugvelli hafi ekki verið í samræmi við aukinn farþegafjölda og svo er það rakið, og þetta er það sem maður myndi kannski kalla praktísk vandamál, að þetta hafi leitt til þess að flugvélar þurfi oft að lenda á fjarstæðum — merkilegt orð fjarstæði og svo beygist það fjarstæðum — og að ferja þurfi farþega þaðan í rútu inn í flugvallarbygginguna. Það hafi komið fram í viðbrögðum farþega félagsins að þetta fyrirkomulag geri upplifun þeirra af tengifluginu neikvæðari, en einnig verður það meira krefjandi að tryggja skamman tengitíma af þessum orsökum. Þarna eru rakin praktísk vandamál sem rökstyðja þessa forgangsröðun í þágu Keflavíkurflugvallar.

Ég hef hug á því, herra forseti, að fjalla meira um þetta álit og bið um að vera skráður á mælendaskrá.