150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[11:07]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Það er áhugavert að heyra hv. þingmann fara með þennan formála um að nú ætli hann að fjalla um borgarlínu af því að svo fáir hafi heyrt ræður hans hér um nætur sem hann hélt hér um daginn. Ég heyrði þær allar og þær fjölluðu allar um borgarlínuna, sem er ótrúlega sérstakt af því að við erum ekki að fjalla um borgarlínuna. Það er eins og hliðarveruleiki hv. þingmanns sé orðinn slíkur að hann átti sig ekki á því hvar við erum í dagskránni. Við erum að fjalla um samgönguáætlun. Næsta mál á dagskrá er borgarlínan. Ef hv. þingmenn Miðflokksins ákveða einhvern tímann að hætta málþófi um samgönguáætlun þá komumst við í að ræða borgarlínu.

Það er athyglisvert, forseti, að fylgjast með því hvernig heill flokkur ákveður að auglýsa sig hér þannig að hann sé fullkomlega óstjórntækur, það sé ekki nokkur einasti möguleiki fyrir nokkurn annan flokk að starfa nokkurn tímann með þessum flokki sem heldur Alþingi í gíslingu út frá eigin persónulegri óvild í garð eins stjórnmálamanns. Fólk sem umgengst lýðræði þannig er ekki stjórntækt. Og það er ágætt ef hv. þingmenn Miðflokksins auglýsa það bara hér dag eftir dag, nótt eftir nótt, ræðu eftir ræðu.

Ég hefði haldið að hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sem á miklar rætur að rekja til Norðausturkjördæmis þar sem hann er þingmaður, vildi ræða við kjósendur sína um framkvæmdir í Norðausturkjördæmi. En nei, forseti. Hv. þingmaður hefur engan áhuga á þeim. Hann þarf ekki að ræða við íbúa Akureyrar um flughlaðið þar sem fær hér loksins fjármuni. Hann þarf ekki að ræða við íbúa Þórshafnar eða Fjallabyggðar um hafnarframkvæmdir. Hann hefur engan áhuga á því. Persónuleg óvild hans í garð eins stjórnmálamanns, sem er ekki einu sinni í þessum þingsal, trompar allt. Það er bara ágætt að búið sé að fá það á hreint (Forseti hringir.) í eitt skipti fyrir öll að venjulegar leikreglur lýðræðisins skipta hv. þingmann engu máli.