150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[11:09]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var eiginlega ekki andsvar. Þetta var svona pirringskast og ég held að það hefði farið betur á því að hv. þingmaður hefði hringt í einhvern útvarpsþátt og fengið útrás þar. En þó að nokkrum atriðum sem hann nefndi. Í fyrsta lagi sagðist hv. þingmaður hafa hlustað á allar ræður mínar og þær hafi allar fjallað um borgarlínu. Það er bara ekki rétt og sýnir að hv. þingmaður hefur ekki hlustað eins vel og hann vill vera láta því að ég fjallaði heilmikið um innanlandsflugið áður en ég sneri mér að almenningssamgöngukafla sáttmálans. Þetta verkefni og almenningssamgöngur heyra vissulega undir það sem við erum að ræða hér, áætlun í samgöngumálum. Ef hv. þingmaður kynnir sér hvað hér er til umræðu þá er m.a. um að ræða almenningssamgöngur og borgarlínu. Það er kannski ein af ástæðunum fyrir því, ein af nokkrum, að þrátt fyrir mjög veigamiklar breytingar á samgönguáætlun til hins betra í nefndinni hefur þó reynst erfitt að styðja áætlunina í heild því að á henni eru enn þá veigamiklir gallar.

Hvað varðar kenningar hv. þingmanns um að þetta snúist allt um einhverja persónulega óvild í garð einhvers stjórnmálamanns, sem hann nefnir ekki, vil ég einfaldlega benda á það að hér í umræðu um borgarlínu og almenningssamgöngukafla samgönguáætlunar er um að ræða skuldbindingar upp á tugi milljarða til framtíðar. Því skyldu þingmenn ekki vilja ræða það? Það vekur í rauninni furðu að hv. þingmaður skuli bregðast við með þessum hætti og reyna að koma í veg fyrir umræðu um tugmilljarða útgjöld, jafnvel hundraða milljarða útgjöld, til langrar framtíðar og búa til (Forseti hringir.) einhverja kenningu um að þetta snúist um óvild í garð stjórnmálamanns.