150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[11:16]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég verð í upphafi ræðu minnar að minna hv. þm. Kolbein Óttarsson Proppé á það, vegna þess sem fram fór í andsvörum áðan, að margar af ræðum okkar í þessu máli fjölluðu um miklu fleira en borgarlínuna og margar af þeim ræðum sem ég flutti voru í raun og veru þakklætisvottur til hv. samgöngunefndar fyrir það hvað hún hefur þó unnið vel úr þeirri samgönguáætlun sem lögð var fram í haust. Það gladdi mig vegna þess að sú samgönguáætlun var mjög rýr í roðinu og ýmis verkefni, einmitt á landsbyggðinni, færð aftar í röðina. Hv. samgöngunefnd náði að hnika mörgum þeim verkefnum til og færa þau framar þannig að sveitarfélög og fólk af landsbyggðinni er heldur sáttara við þessi mál núna en það var fyrir jólin. Ég las einmitt upp úr umsögnum frá ýmsum sveitarfélögum og Samtökum sveitarfélaga á landsbyggðinni um þau mál og í raun og veru lítillæti þeirra gagnvart því að fá þó lítið en eitthvað í sýnilegri framtíð, svo að það sé sagt.

Mig langar að grípa niður í skýrslu sem kom út vegna veðursins sem geisaði hér í vetur. Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson óskaði, ásamt fleiri þingmönnum, eftir skýrslu frá forsætisráðherra um aðdraganda og afleiðingar óveðursins 9.–11. desember 2019. Skýrslan barst 2. júní og hún fjallar um viðbúnað og úrbætur. Skemmst er frá því að segja að fárviðrið sem gekk yfir Ísland í desember 2019 olli miklu tjóni og hafði mikil samfélagsleg áhrif. Samgöngur stöðvuðust og atvinnulífið lamaðist á þeim svæðum sem urðu verst úti. Skýrslan er ágætlega unnin og tekur á mikilvægum þáttum er snúa að grunninnviðum en eins og fólk man varð víðtækt rafmagnsleysi á Norðurlandi vestra og á Norðurlandi eystra.

Í skýrslunni segir, með leyfi forseta:

„… einnig gætti rafmagnsleysis á Austurlandi, á Vestfjörðum og á litlu svæði á Suðurlandi. Lengst varði rafmagnsleysið í þrjá daga samfellt. Miklar truflanir urðu á fjarskiptasamböndum vegna rafmagnsleysis og urðu íbúar á sumum svæðum sambandslausir við umheiminn auk þess að búa við rafmagnsleysi, ekki síst í dreifbýli. Mikið foktjón varð, sem og tjón á mannvirkjum vegna ágangs sjávar. Bændur urðu fyrir búsifjum vegna veðurofsans og rafmagnsleysisins. Auk þess féllu snjóflóð, en þó færri en búist hafði verið við miðað við veðurspá. [...]

Ákveðið var að senda ekki mikinn mannskap á milli landsvæða enda von á ófærð í ljósi óveðursins og mikil óvissa um hvar mögulegar bilanir í dreifikerfinu yrðu. Í aðdraganda fárviðrisins voru þó einhverjir starfsmenn og verktakar fluttir til innan landsvæða …“

Starfsmenn voru sendir til Víkur og á fleiri staði í kringum landið. Í skýrslunni kemur fram að Landsnet hafi skipulagt mönnun mannvirkja og að Vegagerðin hafi einnig verið viðbúin.

Og áfram segir:

„Isavia yfirfór aðgerðaáætlanir, undirbjó aðgerðir og hafði meðal annars samband við alla flugvelli. Landsbjörg kallaði út björgunarsveitir, mannaði stjórnstöð í Skógarhlíðinni og flutti búnað milli svæða.“

Afleiðingarnar voru þær að miklar truflanir voru á samgöngum vegna mikillar snjókomu, vinds og slæms skyggnis. Eftirmáli og uppbygging innviða hefur verið gríðarleg.

Þetta er ágæt skýrsla og margt sem kemur fram í henni. Talandi um samgöngur er mikill ábyrgðarhluti að við búum þannig um hnútana í samgöngum að jafnræðis sé gætt á milli landshluta vegna aðstæðna sem eru misjafnar úti á landi vegna veðurs og færðar yfirleitt. Það hefur einmitt komið oft fram í ræðum um málið hjá þeim sem hér stendur. Þegar sagt er að við ræðum eingöngu um eitt atriði í samgönguáætlun er það alls ekki rétt.